FARSÆLT SAMFÉLAG FYRIR ALLA - Bjóðum öll börn velkomin í íþróttastarfið.


Fimmtudaginn 7. apríl 2022 var mikill mannauður samankomin á Hilton Nordica en þar fór fram ráðstefna undir heitinu „Farsælt samfélag fyrir alla“  Meginþema ráðstefnunnar var „Tækifæri barna og ungmenna í íþróttastarfi“

Ráðstefnan var haldin í samstarfi þriggja ráðuneyta, félags og vinnumarkaðsráðuneytis, mennta og barnamálaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis. Í stýrihóp verkefnisins var  Þór Þórarinsson frá félags og vinnumarkaðsráðuneytinu, Anna Karólína Vilhjálmsdóttir frá Íþróttasambandi fatlaðra, Anna Lára Steindal frá Þroskahjálpar og Þórdís Viborg frá Öryrkjabandalagi Íslands. Þverfaglegt samstarf ráðuneyta og samtaka var því rauður þráður í undirbúningi og skipulagi dagskrár. Ráðherrarnir, Ásmundur Einar Daðason, Guðmundur Ingi Guðbrandsson og Willum Þór Þórsson ávörpuðu gesti og lögðu allir áherslu á að skapa þyrfti aðstæður fyrir öll börn, til að upplifa þá gleði og ánægju sem fylgt getur íþróttastarfi og félagslegum samskiptum.

Ávörp fluttu einnig Valgerður Rúnarsdóttir, lögfræðingur Sambands íslenskra sveitarfélaga,  Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ, Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar og Líneik Anna Sævarsdóttir formaður velferðarnefndar alþingis. Í upphafi ráðstefnu voru þær Ruth Jörgensdóttir Rauterberg frá Menntavísindasviði HÍ og Sunna Ágústsdóttir, frá ungmennaráði Þroskahjálpar með erindi um „inngildingu“ út frá því hvaða sjónarhorn skipti máli við innleiðingu.

Þverfaglegt samstarf er stefna til framtíðar og forsenda árangurs og á ráðstefnunni var lögð áhersla á þennan þátt.  Aukið og markvisst samstarf IF, ISI, UMFÍ, sveitarfélaga, ríkis, ŌBÍ og Þroskahjálpar er mikilvægt skref og kallar á aukna ábyrgð fleiri aðila á þessu máli. 

Ráðstefnan var á margan hátt einstök og kallaði fram raddir ólíkra hagsmunahópa.

Horft var sérstaklega á börn með fötlun eða frávik, börn sem af einhverjum ástæðum hafa ekki fallið í hópinn eða ekki fengið tækifæri til þátttöku með sínum jafnöldrum.

Fyrirlesarar fengur flestir 5 mínútur til að kynna verkefni eða segja sögur og óhætt er að fullyrða að fjölbreytileikinn var allsráðandi á sviðinu. Þjálfarar, formenn íþróttafélaga, foreldrar, íþróttafólk, skólastjórnendur, kennarar, fulltrúar sveitarfélaga og aðrir voru með mjög áhugaverð innlegg og ábendingar.  Anna Karólína Vilhjálmsdóttir, framkvæmdastjóri Special Olympics á Íslandi og þróunarsviðs ÍF stýrði panel þar sem lögð var fram spurningin; Hvar liggja tækifærin – hvað er hægt að gera til að auka virka þátttöku?  Þátttakendur voru Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ,  Andri Stefánsson, framkvæmdastjóri ÍSÍ og Þórður Árni Hjaltested,  formaður IF.  Þeir komu fram með ýmsar hugmyndir og voru sammála um að öll íþróttahreyfingin þyrfti að að vinna saman ef árangur ætti að nást.

Lykilþáttur í allri umræðu á ráðstefnunni var hlutverk þjálfara og mikilvægi þess að fá góðar móttökur þegar barn stígur inn í íþróttastarfið. Ítrekað kom fram mikilvægi þess að þjálfarar fái stuðning sé þörf á því t.d. aðstoðarþjálfara eða aðstoðarmann með iðkanda.

Íþróttafélög, sveitarfélög og ríki þurfa að vinna saman að úrlausn. Stuðningsúrræði getur ráðið úrslitum um þátttöku barna og ungmenna í íþróttastarfinu.

Í lok ráðstefnu stýrði Þór G. Þórarinsson, sérfræðingur hjá félags og vinnumarkaðsráðuneytinu verkefnum vinnuhópa. Tekin voru fyrir málefni tengd íþróttahreyfingunni, félagsþjónustu, heilbrigðisþjónustu og menntakerfinu. Hver hópur lagði fram sínar tillögur og þann 19. maí var haldinn annar vinnufundur þar sem unnið var úr helstu niðurstöðum. Úrvinnsla heldur áfram og niðurstöður kynntar nánar haustið 2022

Nánari kynning á fyrirlesurum og myndir og efni ráðstefnu má sjá á https://hvatisport.is/farsaelt-samfelag-fyrir-alla-bjodum-oll-born-velkomin-i-ithrottastarfid/

Streymi frá ráðstefnunni er aðgengilegt hér; https://www.stjornarradid.is/verkefni/felags-og-fjolskyldumal/aeskulydsmal/farsaelt-samfelag/