Upplýsingar

UPPLÝSINGAR UM ÍÞRÓTTASAMBAND FATLAÐRA


ÍÞRÓTTASAMBAND FATLAÐRA Í.F. er stofnað 17. maí 1979 og er eitt af 21 sérsambandi innan ÍSÍ. Öll félög innan Í.S.Í. er iðka, æfa og keppa í íþróttum fatlaðra eru aðilar að Í.F.


Skrifstofa IF er í íþróttamiðstöðinni í Laugardal. Sérstaða miðað við önnur sérsambönd er sú, að ÍF hefur ekki aðeins með eina ákveðna íþróttagrein að gera. Íslandsmót ÍF eru haldin í boccia, bogfimi, borðtennis, frjálsum íþróttum, lyftingum og sundi. Auk þess fara fram æfingar og/eða keppni í fleiri greinum. Islandsleikar Special Olympics í áhalda og nútímafimleikum, knattspyrnu og listhlaupi á skautum auk Íslandsleika í hefðbundnum greinum.  Aukið samstarf hefur verið við sérsambönd ÍSÍ vegna Íslandsmóta ÍF og árið 2021 eru Íslandsmót ÍF í sundi og frjálsum tengd meistaramótum SSÍ og FRÍ


Hlutverk Í.F.


Hafa yfirumsjón með þeim íþróttagreinum sem fatlaðir stunda á Íslandi
annast útbreiðslu- og fræðslustarf varðandi íþróttir fatlaðra
vera fulltrúi Íslands varðandi erlend samskipti er tengjast íþróttamálum fatlaðra
gæta hagsmuna allra þeirra fötlunarhópa sem eru innan Í.F. en þeir eru:


 Iðkendur með þroskahömlun, hreyfihömlun, sjónskerðingu /blindir. Með tilkomu aukinna greininga hafa iðkendur með mismunandi greiningar tekið þátt í mótum ÍF og reynt hefur verið að koma til móts við það eins og hægt er, sérstaklega ínnanlands. Á mótum erlendis þarf að taka mið af alþjóðlegum flokkunum og reglugerðum því tengt.  Mót á vegum IPC s.s. Paralympics taka mið af þröngum skilgreiningum en hægt hefur verið að opna dyr fyrir fleiri að keppni á vegum Special Olympics samtakanna.


Stundum hefur verið talað um ÍF sem "litla ÍSÍ" þar sem uppbygging þess líkist frekar uppbyggingu ÍSÍ en sérsambandanna.

Íþróttasamband fatlaðra hefur innan sinna vébanda um 22 aðildarfélög sem staðsett eru víðs vegar um land. Íþróttasamband fatlaðra reynir að sinna hverju aðildarfélagi sem best, með upplýsingastreymi varðandi mót og aðra atburði er tengjast íþróttum fatlaðra, aðstoðar félögin varðandi hugmyndir að fjáröflunarleiðum og hvað varðar uppbyggingarstarf, styrkir félaga innan þeirra til keppnisferða o.fl.


Haldin eru námskeið, útbreiðslufundir, skólar heimsóttir o.fl. en samvinna við mennta- og heilbrigðiskerfið er mjög nauðsynleg í útbreiðslustarfinu. Lögð er síaukin áhersla á samstarf við almenn íþróttafélög en fyrst og fremst er hvatt til þess að skapaðar séu aðstæður sem gefa öllum iðkendum kleift að velja þá grein sem áhugi stendur til. 


Stjórn Íþróttasambands fatlaðra er kjörin á sambandsþingi ÍF sem er haldið annað hvert ár. Formannafundir eru haldnir árlega. Á vegum ÍF eru starfandi nefndir og ráð sem hafa með ákveðna málaflokka og/eða ákveðnar íþróttagreinar að gera; Læknaráð, fræðslunefnd, fagráð, dómstóll Í.F. afreks- og ólympíuráð, boccianefnd, borðtennisnefnd, frjálsíþróttanefnd, sundnefnd, bogfiminefnd, lyftinganefnd, vetraríþróttanefnd og Special Olympics nefnd. Auk þess sumarbúðanefnd og tímabundnar nefndir vegna sérverkefna.


Nefndir starfa í tengslum við stjórn og starfsmenn ÍF. ÍF hefur borið gæfu til að fá í nefndir sínar fólk sem hefur lagt ómetanlegt lóð á vogarskálarnar með framlagi sínu sem allt er unnið í sjálfboðavinnu. Íþróttanefndir sjá m.a. um undirbúning Íslandsmóta í boccia, bogfimi, borðtennis, lyftingum, frjálsum íþróttum og sundi í samráði við skrifstofu ÍF.


ÍF í samstarfi við íþróttanefndir og aðra aðila hefur staðið fyrir kynningar og fræðslustarfi ÍF og í fjölda ára var gefin út handbók ÍF.  Áersla hefur lengi verið lögð á að safna myndefn, ljósmyndum og myndböndum til að nýta í kynningarstarfi. Gefið hefur verið út fréttabréf ÍF og síðast tímaritið Hvati en árið 2020 var ákveðið að rafvæða útgáfu Hvata og vefsíður ÍF koma nú undir einu nafni auk tímaritsins Hvata á 

https://hvatisport.is/


GSFÍ, golfsamtök fatlaðra er samstarfsverkefni IF og GSÍ og ákveðnir viðburðir eru árlega.  Knattspyrnunefnd Special Olympics á íslandi og IF hefur starfað með KSÍ  að þróun á sviði knattspyrnu fyrir ,,alla" og Íslandsleikar Special Olympics og KSÍ  í knattspyrnu hafa verið haldnir árlega. Einnig hafa verið Sparkvallaverkefni og sérverkefni fyrir konur í knattspyrnu auk ýmissa sérverkefna sem eiga að stuðla að aukinni þátttöku ..allra" í knattspyrnu.
Starfshópur ÍF og Hestamiðstöðvar Íslands á Sauðárkróki stóð fyrir tveimur ráðstefnum um reiðþjálfun og reiðmennsku fatlaðra  en erlendir kennarar komu að námskeiðinu. Starfshópurinn vann að því að koma á viðurkenningu á sjúkraþjálfun á hestbaki og það er nú orðin viðurkennd meðferð e. Samstarf hefur einnig verið í þróun við Háskólann á Hólum um aukna fræðslu reiðkennara en næsta verkefni er að þróa samstarf á sviði félagslegra samskipta og notkun hesta á því sviði. Gerðar hafa verið lokaritgerðir í HÍ sem þessu tengist. Samstarf varðandi þróun vetraríþrótta  var í fjölmörg ár við  Vetraríþróttamiðstöð Íslands á Akureyri, Challenge Aspen í Colorado og Winter Park Colorado. Leiðbeinendur frá Challenge Aspen og Winter Park hafa komið til Íslands og haldið námskeið og íslenskir iðkendur hafa sótt skíðaþjálfun til samstarfsaðila í Colorado m.a. vegna þátttöku í Vetrarólympíuleikum 2010 og 2014.


Erlend samskipti


Norræn heildarsamtök Íþróttasambanda Fatlaðra á Norðurlöndum eru starfandi, NORD HIF. Í stjórn NORD HIF eru formenn Íþróttasambanda Fatlaðra á Norðurlöndum. Auk þess starfa nefndir að einstaka verkefnum. Á vegum NORD HIF eru m.a. Norðurlandamót,  fundir og námskeið. Skrifstofa NORD HIF  er til skiptir á hverju Norðurlandanna. .


ÍF er aðili að alþjóðlegum samtökum hinna ýmsu fötlunarhópa og samtaka; IBSA, CP-ISRA, INAS-FMH, ISOD, IWAS, SPECIAL OLYMPICS, IPC, CISS. ÍF tekur þátt í mótum og fundum á vegum þessarra samtaka þannig að umfang starfsins er mikið bæði innanlands og utan. Mikil og hröð þróun er í íþróttaheimi fatlaðra og mikilvægt að fylgjast vel með.


IPC; International Paralympic Committee / álþjóðaólympíuhreyfing fatlaðra stendur að ólympíumótum fatlaðra fjórða hvert ár. IPC stendur auk þess fyrir heimsmeistaramótum.


Íþróttagreinar


Íþróttagreinar sem keppt er í á Íslandsmótum ÍF eru;


Boccia, bogfimi, borðtennis, lyftingar, frjálsar íþróttir, sund. Í mars eða apríl fer fram Íslandsmót ÍF í boccia, sveitakeppni, borðtennis, bogfimi, frjálsum íþróttum,lyftingum og sundi og frjálsum íþróttum, innanhúss. Keppt er í frjálsum íþróttum utanhúss að sumri. Íslandsmót í boccia einstaklingskeppni er haldið á haustin og er þá í umsjón aðildarfélaga ÍF í samvinnu við ÍF.

Íslandsleikar Special Olympics fara yfirleitt fram sem sérviðburður en eru stundum tengdir Íslandsmótum ÍF í öðrum greinum. 
ÍF hefur staðið fyrir kynningum á nýjum íþróttagreinum, kynnt ný íþróttatæki og búnað og stuðlað að kaupum á nýjum tækjum í tengslum við nýjar íþróttagreinar. Vetraríþróttatæki hafa verið keypt til landsins á síðustu árum s.s. skautasleði, alpaskíðasleði og gönguskíðasleði og hafa þessi tæki reynst vera mjög hentug hreyfihömluðu fólki.


Starfsemi Special Olympics á Íslandi
 

Íþróttasamband fatlaðra er umsjónaraðili Special Olympics á Íslandi en ÍF gerðist aðili að alþjóðasamtökum Special Olympics árið 1989. Samtökin standa fyrir fjölmörgum verkefnum m.a. glæsilegum leikum fyrir þroskahefta og Ísland hefur tekið virkan þátt í starfinu. Stærsta verkefnið eru alþjóðasumar og vetrarleikar sem haldnir eru fjórða hvert ár. Síðasta verkefni var þátttaka í heimsleikum Special Olympics í Abu Dhabi, 2019 þar sem keppt var í 10 greinum, alls 38 íslenskir keppendur.


Samtökin standa fyrir markvissu þróunarstarfi á alþjóðavettvangi á sviði heilbrigðis og menntamála og íþróttastarfið er í dag aðeins einn þáttur í starfseminni. Alls eru skráðir iðkendur á vegum Special Olympics í heiminum yfir 5 milljónir.


Nánari upplýsingar um Special Olympics á Íslandi eru á heimasíðu ÍF www.isisport.is/if


Heimasíða alþjóðasamtakanna er www.specialolympics.org


Upplýsingar um útbreiðslustarf ÍF innanlands


Íþróttir fyrir fatlaða eru mjög mikilvægar , þar sem þær stuðla að auknum líkamlegum styrk hins fatlaða auk þess að efla sjálfstraust og félagsþroska. Margir fatlaðir lifa við vanmat á eigin getu og oft hefur leiðin til sjalfshjálpar legið í gegnum þátttöku í íþróttum.


Samstarf við endurhæfingarstofnanir er stór þáttur í starfi ÍF en segja má að íþróttir fyrir fatlaða séu áframhald af endurhæfingu þeirri sem fer fram á endurhæfingarstofnunum t.d. eftir að einstaklingur hefur lent í slysi og hlotið fötlun.


Markvisst samstarf hefur verið við Sjúkraþjálfunarbraut Háskóla Íslands en stöðugt er unnið að aukinni samvinnu við heilbrigðiskerfið og menntakerfið. Lögð er áhersla á samvinnu við sérskóla, fagsamtök og landssamtök fatlaðra en einnig hefur farið fram kynningarstarf innan framhaldsskólanna. Áralangt markvisst samstarf hefur verið við KHÍ, íþróttakennaraskor og samstarf hefur einnig verið við HR


Áhersla er lögð á að koma upplýsingum um íþróttastarf fatlaðra til þeirra sem starfa að málefnum fatlaðra þannig að þeir geti stuðlað að aukinni þátttöku með hvatningu til sinna skjólstæðinga.


Fötluð skólabörn fá oft ekki lögboðna íþróttakennslu, en þessi börn fá mörg þjálfun í íþróttafélögum fatlaðra og því má segja að Íþróttasamband Fatlaðra gegni þar stóru hlutverki gagnvart skólakerfinu.


Íþróttasamband fatlaðra á enn mikið verk fyrir höndum, því ennþá eru allt of margir fatlaðir einstaklingar úti um allt land, sem ekki hafa fengið tækifæri til þess að kynnast íþróttum eða taka þátt í þeim. Það er markmið Íþróttasambands Fatlaðra að allir fatlaðir einstaklingar sem áhuga hafa á, fái tækifæri til þátttöku í íþróttastarfi. Mjög mikilvægt er að upplýsingar um gildi íþrótta fatlaðra og möguleika fatlaðra til íþróttaiðkana nái til þeirra sem starfa með fatlað fólk hvar sem er á landinu.


Markmið ÍF og aðildarfélaga ÍF er að hjálpa fötluðum af stað í íþróttunum og gera þeim kleift að taka þátt í starfi almennra íþróttafélaga. Afreksfólk úr röðum fatlaðra æfir mjög oft með almennum íþróttafélögum.


Íþróttasamband fatlaðra sendir landslið Íslands í ýmsum íþróttagreinum fatlaðra erlendis á hverju ári en einnig er lögð mikil áhersla á að styðja við byrjendastarfið og almenna iðkendur.


Stærstu verkefnin sem varða hinn almenna íþróttaiðkanda er þátttaka Íslands í norrænu barna- og unglingamóti sem haldið er annað hvert ár, auk þess sem með þátttöku Íslands í Special Olympics International, hafa skapast fjölmörg ný tækifæri fyrir þroskahefta íþróttaiðkendur.


Lítil hvatning getur skipt sköpum um þátttöku fatlaðra í íþróttum.


Stúlka frá Grindavík var valin á barna og unglingamótið í Danmörku árið 1991. Þar sem ekki eru starfandi íþróttafélög fatlaðra er erfitt að koma upplýsingum til fatlaðra eða að fá vitneskju um fatlaða á stöðunum. Þar sem ekki var starfandi slíkt félag á Suðurnesjum var það mikil tilviljun, að bent var á þessa stúlku fyrir mótið, hún var heimsótt og sló til að koma með eftir þó dálitla umhugsun. Val hennar á þetta mót skipti sköpum í lífi hennar. Hún var aðalhvatamaður að stofnun íþróttafélags fatlaðra á Suðurnesjum sem stofnað var aðeins 5 mánuðum eftir barna og unglingamótið í nóvember 1991 og var kjörinn formaður þess þá aðeins 16 ára. Þetta markaði tímamót í lífi hennar og segir hún sjálf að hún sjái sig í nýju ljósi í dag, sé ófeimnari að umgangast ófatlaða og sé að öllu leyti sjálfstæðari og öruggari manneskja - Eins og hún segir sjálf: "Nú finnst mér ég vera eitthvað".


Íþróttastarf er ein leið til þess að hjálpa einstaklingum að brjótast út úr einangrun sem oft er til staðar.
Hvatning er mjög mikilvæg, jafnvel lykilatriði.
"Ef við gætum forritað líkamlega hreyfingu í töfluform yrði sú tafla notuð meira en nokkuð annað læknameðal "


Fatlaðir einstaklingar á öllum aldri æfa í dag hefðbundnar íþróttagreinar s.s. sund, frjálsar íþróttir, borðtennis, ýmsar boltagreinar, keilu, lyftingar o.fl. bæði innan íþróttafélaga fatlaðra og einnig með almennum íþróttafélögum. Auk Íslandsmóta á vegum Íþróttasambands Fatlaðra eru haldin ýmis íþróttamót á vegum félaganna, innanfélagsmót og opin mót. Lionsklúbburinn Hængur á Akureyri stendur fyrir árlegu Hængsmót sem er annað stærsta mót fatlaðra og fleiri þjónustuklúbbar standa fyrir mótum í sínu heimahéraði.


Boccia og bogfimi eru íþróttagreinar sem stundaðar eru aðeins hjá íþróttafélögum fatlaðra. Margir ófatlaðir einstaklingar æfa þessar greinar með íþróttafélögum fatlaðra


Ófatlaðir einstaklingar taka þátt í Íslandsmótum ÍF í boccia og bogfimi.


Sérstakur flokkur U- flokkur er settur upp fyrir þá sem ekki ná lágmarksfötlun skv. IPC.


Ófötluð börn og unglingar sem hafa verið/eru utanvelta í íþróttalífi ófatlaðra hafa leitað til íþróttafélaga fatlaðra eftir félagsskap og tómstundaiðkun.


Á Íslandsmótum ÍF fer bocciakeppni fram í deildum, U flokki og rennuflokki.


Mismunandi fötlunarhópar keppa saman, karlar og konur en 5 efstu og 5 neðstu í hverri deild færast á milli deilda á hverju ári. Allir eiga því jafna möguleika á að vinna sig áfram í deild en byrja þátttöku í neðstu deild.


Í fyrsta skipti á Íslandsmóti ÍF, 1993 var keppt í "sérflokki" mikið fatlaðra einstaklinga en í þeim flokki eru leyfð sérstök hjálpartæki. Renna er notuð til að koma boltanum frá einstaklingnum og út á gólfið og því geta mjög mikið fatlaðra einstkaklingar tekið þátt í bocciakeppninni í þessum flokki.


Boccia er íþróttagrein sem hægt er að stunda nánast hvar sem er og möguleikar til að nýta þessa íþrótt eru nánast óþrjótandi. Kiwanis/Lionsklúbbar eða aðrir þjónustuklúbba hafa staðið fyrir bocciamótum og einnig hafa verið haldin ýmis mót þar sem sveitir mismunandi aðila innan bæjarfélaga keppa. Slíkt samstarf og verkefni hafa átt stóran þátt í að kynna og efla skilning forráðamanna bæjarfélaga á íþróttastarfi fatlaðra.


Framhaldskólar hafa í samvinnu við íþróttafélög fatlaðra staðið fyrir maraþonboccia sem fjáröflun og hefur það tekist mjög vel.


Eldri borgarar voru í upphafi þátttakendur á Islandsmótum ÍF en halda nú eigin mót, enda fjölgun gífurleg í röðum eldri borgara sem stunda þessa íþrótt.


Boccia er fjölmennasta íþróttagrein fatlaðra á Íslandi og sú íþróttagrein sem stunduð er af öllum aðildarfélögum ÍF


Íþróttafélag fatlaðra í Reykjavík og íþróttafélagið Akur á Akureyri eru einu íþróttafélögin á landinu sem bjóða upp á skipulagðar bogfimiæfngar. Á Íslandsmótum ÍF í bogfimi keppa ófatlaðir við fatlaða í opnum flokki, karla, kvenna