ÍF hefur frá árinu 2015 unnið að innleiðingu YAP, Young Athlete Project, sem byggir á hreyfiþjálfun ungra barna og mikilvægi snemmtækrar íhlutunar. Kristztina Agueda, stofnandi Hreyfilands býr yfir áralangri reynslu á þessu sviði og hefur unnið markvisst með börn með frávik. Hún var gestafyrirlesari hjá 3. árs nemum í íþróttafræði í HÍ þann 5. október í áfanga um Íþróttir og margbreytileikann.
Fyrirlesturinn bar heitið; Connection in between movement development and immaturity. Kynntur var bæklingur sem unnin var í samstarfi 6 landa, Þroski barnsins þar sem viðmið eru sett við ákveðin aldursstig. Reflexar og viðbrögð, hegðunarmunstur barna og greining voru áhugavert umræðuefni. Það sem lagt var upp með var að horfa á gildi snemmtækrar íhlutunar út frá síðari aldursstigum, að bregðast við á mótunarskeiði ef þörf er á.
Mjög áhugaverð kynning var á BHRG matskerfinu. Longikid - fyrir börn 3 mánaða til 11 ára, mat á hreyfiþroska og taugaviðbrögðum, málþroska og skilningi, TSMT -1(einstaklingsmeðferð) fyrir börn 3 mán til 8 ára.og TSMT -2 (hópmeðferð) fyrir 18 mán til 12 ára, mat á hreyfiþroska og taugaviðbrögðum. BHRG stofnunin hefur frá árinu 1993 unnið með börnum, 3 mánaða til 14 ára og stofnandinn, Katalin Lakatos sem nú er látin, var þekkt fyrir rannsóknir sínar í tengslum við hreyfiþroska og taugakerfisvanda barna og þau meðferðarúrræði sem hún og sérfræðiteymi hennar hafa þróað. Meginmarkmið þessa kerfis er eins og YAP verkefnið gengur út á, að nýta snemmtæka íhlutun og bregðast við með meðferðarúrræðum. Ef niðurstöður mats hjá BHRG stofnunninni kalla á inngrip er boðið upp á meðferðarúrræði í samráði við aðstandendur og þar eru einstaklingsmiðaðar heimaæfingar stór þáttur til árangurs. Nokkrir Íslendingar sóttu námskeið BHRG í Ungverjalandi á síðasta ári,m.a. leikskólakennarar og íþróttafræðingar sem nutu aðstoðar Krisztinu við að sækja námskeiðið. Samspil hreyfiþroska og náms og snemmtæk íhlutun á því sviði er mikilvægt rannsóknarefni. Þegar börn hefja skólagöngu, taka þátt í fyrsta íþróttatímanum eða í íþróttum utan skóla, þá er mikilvægt að hafa notið þeirra úrræða sem geta stuðlað að aukinni færni, ekki síst hjá börnum með einhverskonar frávik og stuðningsþarfir. Þegar rætt er um íþróttir og margbreytileikann, þá er mikilvægt að horfa til framtíðar og virkja öll börn til þátttöku. Ekki síður er mikilvægt að nýta öll þau úrræði sem talin eru geta stuðlað að því að auka færni lítilla barna og hugsanlega geta haft jákvæð áhrif á stöðu barns þegar skólaganga hefst..