Arnar Helgi stórbætir tímana sína og með risaverkefni í vinnslu


Arnar Helgi Lárusson tók þátt í Reykjanesmóti 3N á dögunum þar sem hann stórbætti árangur sinn í handahjólreiðum frá fyrra móti en um var að ræða 30km hjólaleið. Arnar hefur síðustu misseri lagt ofuráherslu á handahjólreiðar en eins og margir kannast við hóf hann afreksferil sinn í hjólastólakappakstri (e. Wheelchair-racing).


Á mótinu var Arnar klukkustund og níu mínútur með 30 kílómetrana en þess má geta að það var ríflega sex mínútna bæting frá fyrra móti þar sem hann kom í mark á rúmri klukkustund og 15 mínútum.


Arnar hefur æft mikið undanfarið enda risastórt verkefni í vændum í júnímánuði þegar Arnar Helgi, sem einnig er formaður SEM-samtakanna, mun hjóla 400 kílómetra á innan við sólarhring. Verkefnið er ætlað til þess að vekja athygli á hreyfingu hreyfihamlaðra. Átakinu er ætlað til kaupa á fjórum fjallahjólmum með rafmangs-hjálparmótor sem hægt er að stilla eftir getu einstaklinga.


Hér er hægt að kynna sér betur verkefnið „Sem fuglinn fljúgandi.”


Íþróttasamband fatlaðra hvetur alla til þess að styðja þétt við bakið á verkefninu.