Það staðfestist að Íslandsmót ÍF sem vera átti á Selfossi í samstarfi við KRAFT og Suðra mun falla niður.
Ekki voru taldar forsendur til að fresta mótinu enn frekar á þessu ári og því hafa nú allar greinar sem vera áttu á sameiginlegu Íslandsmóti ÍF í apríl verið felldar niður árið 2020. Það er leitt að til þess þurfi að koma en fólk hefur staðið saman í að finna leiðir til að halda áfram æfingum á þessum skrýtnu tímum þó keppni sé því miður ekki framkvæmanleg.
Aðildarfélög ÍF takast á við ástandið, hvert á sinn hátt. Iðkendur hafa í samstarfi við sína þjálfara sýnt mikinn baráttuvilja til að halda sér í formi á fjölbreyttan hátt þegar ekki hefur verið hægt að sækja hefðbundnar æfingar. Samvinna er lykilatriði og þjálfarar eru hvattir til að vinna saman að góðum hugmyndum og gefa öðrum kost á að nýta þær hugmyndir sem virka vel. Æðruleysi og yfirvegun íþróttafólks ÍF á þessum tímum er til fyrirmyndar og lausnamiðaðir þjálfarar hafa náð að virkja ýmsar nýjar leiðir í þjálfun.
Vonast er til þess að með samtakamætti megi takast að koma starfinu í fullan gang sem fyrst en þýðing íþróttastarfsins fyrir jafnt börn sem fullorðna hefur komið vel í ljós undanfarnar vikur og mánuði.