Glæsilegt golfmót LETR til styrktar Special Olympics á Íslandi


Sunnudaginn 19 júlí var haldið glæsilegt golfmót á Leirunni Suðurnesjum en mótið var styrktarmót fyrir Special Olympics á Íslandi.  Rannsóknarlögreglumennirnir Guðmundur Sigurðson og Daði Þorkelsson sem eru fulltrúar LETR á Íslandi ásamt Karen Ástu Friðjónsdóttur, í stjórn Special Olympics, sáu alfarið um undirbúning og framkvæmd í samstarfi við golfklúbb Suðurnesja. Allir teigar voru fullskipaðir og biðlisti á mótið sem tókst framar björtustu vonum og fór fram í blíðskaparveðri. Keppt var Texas Scramble sem þar sem tveir voru í liði.  Auk þátttökugjalda voru fjölmargir  aðilar sem styrktu mótið og heildarinnkoma var yfir 700.000. Íþróttasamband fatlaðra og Special Olympics á Íslandi þakka LETR á Íslandi fyrir þetta frábæra framtak og mikilvægan stuðning. Golfklubbur Suðurnesja og allir þeir sem  styrktu mótið eða lögðu lið fá einnig innilega þakkir.

 

Lögreglumenn og konur úr öllum heiminum hafa tekið þátt í LETR (Law Enforcement Torch Run) sem er alþjoðlegt samstarfsverkefni lögreglunnar og Special Olympics samtakanna. LETR á Íslandi var sett á fót árið 2013 í samstarfi við Special Olympics á Íslandi og Ísland hefur átt fulltrúa í alþjóðlegum hópi lögreglu sem hlaupið hefur kyndilhlaup fyrir Evrópu og Alþjóðaleika Special Olympics m.a. í Abu Dhabi 2019. Innanlands hefur lögreglan staðið að kyndilhlaupum fyrir Íslandsleika Special Olympics auk ýmissa verkefna s.s. afhendingu verðlauna á mótum ÍF og Special Olympics. Samstarf við lögregluna vegna LETR hefur frá upphafi verið einstaklega ánægjulegt. Sú vinna sem lögð var í þetta verkefni sýnir þann áhuga og eldmóð sem LETR á Íslandi býr yfir en meginmarkmið var að vekja athygli á starfi Special Olympics og safna styrkjum til starfsins. 

Special Oympics International var stofnað af Kennedy fjölskyldunni 1968, meginmarkmið er að allir geti tekið þátt í íþróttastarfi og markhópur er fólk með þroskahömlun en einnig er sífellt meiri áhersla á ,,unified" sem er keppni fatlaðra og ófatlaðra. Allir geta verið með, byrjendur sem lengra komnir og Íslendingar hafa átt yfir 500 fulltrúa af öllu landinu á leikum Special Olympics. Á alþjóðaleikum Special Olympics í LA árið 2015 var ,,unified" golfkeppni þar sem lið Íslands var skipað Íslandsmeistara í holukeppni í golfi og bróður hennar. Tækifæri til keppni í golfi eru mikil, þar er auk ,,unified" keppt í mismunandi styrkleikaflokkum og í byrjendaflokki er þrautabraut í stað golfvallar.  Allir geta því verið með og tækifærin blasa við þeim sem vilja nýta þau. Næstu alþjóðaleikar Special Olympics eru í Berlín 2023.