Lögreglumenn standa að opnu golfmóti á Hólmsvelli í Leiru 19. júlí til styrktar Special Olympics


Fulltrúar LETR á Íslandi, lögreglumennirnir Guðmundur Sigurðsson og Daði Þorkelsson ásamt Karen Ástu Friðjónsdóttur í stjórn Special Olympics á Íslandi standa að opnu golfmóti  til styrktar Special Olympics þann 19. júlí.  Mótið fer fram á Hólmsvelli í Leiru  sunnudaginn og leikið verður  „Texas Scramble“ þar sem tveir kylfingar leika saman í liði. Skráning er á vefsíðunni golfbox.dk og fólk er hvatt til að fjölmenna og styrkja gott málefni

 

Árið 1981 hófst samstarf Special Olympics International við lögregluna undir heitinu LETR, (Law Enforcement Torch Run for Special Olympics) Innan LETR eru 150.000 lögreglumenn og konur frá um 50 löndum. LETR stendur að kyndilhlaupi fyrir leika Special Olympics og ýmsum styrktarverkefnum og aðstoðar við kynningarstarf Special Olympics.

Samstarf Special Olympics á Íslandi við íslensku lögregluna hófst 2013 og frá þeim tíma hafa fulltrúar LETR á Íslandi staðið fyrir kyndilhlaupi fyrir Íslandsleika Special Olympics og tekið virkan þátt í alþjóðasamstarfi. Special Olympics samtökin voru stofnuð af Kennedy fjölskyldunni árið 1968 og Ísland varð aðildarland árið 1989. Íþróttasamband fatlaðra hefur sent um 500 keppendur á alþjóða og Evrópuleika Special Olympics m.a. til keppni í golfi. Special Olympics er alþjóðaheiti sem á aldrei að þýða yfir á íslensku. Keppni á leikum Special Olympics er fyrir alla og því gjörólík keppni á Paralympics eða ólympíumóti fatlaðra þar sem aðeins þeir bestu ná lágmörkum til að taka þátt.