Glæsilegir fulltrúar Íslands á Youth Summitt, leiðtogaráðstefnu Special Olympics 2020


Dagana 1. - 3. febrúar 2020 tóku þrír Íslendingar þátt í verkefni Special Olympics, Youth Summitt sem var haldið í Östersund í Svíþjóð. Youth Summitt er leiðtoganámskeið fyrir ungt fólk og byggir á hugmyndafræði um samfélag fyrir alla. Tveir þátttakendur eru frá hverju landi og valið byggir á ,,.unified" hugmyndafræði þar sem fatlaðir og ófatlaðir eru saman í liði. Þátttakendur frá Íslandi voru Guðmundur Jónasson frá Bolungarvík og Ómar Karvel Guðmundsson frá Suðureyri sem hafa báðir keppt í badminton "unifiied" á heimsleikum Special Olympics. Aðstoðarmaður þeirra var Jónas Sigursteinsson, íþróttakennari sem jafnframt er badmintonþjálfari þeirra.Guðmundur hefur sinnt liðveislu nokkra tíma í viku fyrir Ómar Karvel þar sem íþróttir eru stór þáttur.og hefur samstarf þeirra verið báðum mikils virði. Sannarlega glæsilegir fulltrúar Íslands. Þetta er í fyrsta skipti sem Ísland á fulltrúa á Youth Summitt en Special Olympics í Evrópu greiddi allan kostnað við þátttöku.

 

Dagskrá hófst með kynningu á verkefninu og þá tóku við fyrirlestrar um leiðtoga og hvað einkennir góðan leiðtoga ásamt leikjum og samvinnuverkefnum. Þátttakendur tóku síðan í lok dags þátt i opnunarhátíð Pre Games Vetrarleika Special Olympics sem upphaflega átti að vera undirbúningsmót fyrir heimsleika Special Olympics í Svíþjóð 2021 sem nú hafa verið slegnir af. Á sunnudag var áherslan á ,,unified" íþróttir og þjálfun ásamt stuttum fyrirlestrum. Meginþema var samstarf ungs fólks og hve mikilvægt er að allir vinni saman að árangursríkum verkefnum og íþróttastarfi. Lokadaginn voru kynnt ,,unified" verkefni í skólum en skólar erlendis og á Íslandi hafa kynnt hugmyndafræði ,,"unified" og markvisst starf tengt því er í mörgum löndum. Fulltrúar Íslands munu kynna verkefnið nánar en vonandi getur þessi hugmyndafræði skapað vettvang til að efla enn frekar tækifæri ungs fólks til leiðtogastarfa.

.