Hilmar lokaði árinu með silfri á Evrópumótaröð IPC


Skíðamaðurinn Hilmar Snær Örvarsson frá skíðadeild Víkings vann í dag til silfurverðlauna á Evrópumótaröð IPC í alpagreinum sem fram fór í St. Moritz. Hilmar sem hafði síðustu tvo daga stórbætt sig í stórsvigi var í fantaformi fyrr í dag þegar hann landaði öðru sætinu með lokatíma upp á 1:37,70 mín. í svigkeppninni.


Hilmar var annar eftir fyrstu svigferðina á 46,67 sek. og náði aftur öðrum bestum brautartímanum þegar hann kom í mark á 51,03 sek. í seinni ferðinni. Glæsilegur árangur hjá Hilmari sem skotist hefur upp heimslistann í stórsvigi en fyrir nokkrum misserum síðan skipaði hann sér á pall með allra bestu svigmönnum heims í standandi flokki.

Úrslit dagsins í svigkeppninni


Mynd/ Þórður Georg Hjörleifsson - Himar á verðlaunapalli en Frakkinn Arthur Bauchet hafði sigur í svigkeppni dagsins.