Bergrún Ósk Aðalsteinsdóttir, ÍR, hafnaði í 5. sæti í langstökki á heimsmeistaramóti fatlaðra sem nú stendur yfir í Dubai. Bergrún sem keppir í flokki T37 (hreyfihamlaðir) var í fjórða sæti eftir fimm fyrstu umferðirnar en hin franska Manon Gnest náði að smokra sér framúr henni í lokaumferðinni með stökki upp á 4.30 metra. Með sínu lengsta stökki upp á 4.27 metra var Bergrún aðeins einn sentimeter frá Íslandsmeti Matthildar Ylfu Þorsteinsdóttur í flokknum sem er 4.28 metrar.
Lengsta stökk Bergrúnar kom í fyrstu umferð en stökksería hennar var eftirfarandi:
4.27 - 3.96 - 4.16 - x - x -x
Síðustu þrjú stökkin voru ógild og það sjötta og síðasta, þá steig hún aðeins örlítið upp „á leirinn”, en það stökk leit ansi vel út. Fimmta sætið varð því niðurstaðan en hin kínverska Wen Xiaoyan varð heimsmeistari á nýju heimsmeti þegar hún stökk 5.22 metra.
Hin 19 ára gamla Bergrún er að keppa á sínu fyrsta heimsmeistaramóti og á tvær greinar eftir enn en það er keppni í 100m og 200m hlaupi.
Úrslit
Mynd/ Jón Björn - Bergrún Ósk svífur í gryfjuna á HM í Dubai.