Fjörður bikarmeistari ÍF 2019


Íþróttafélagið Fjörður varð bikarmeistari ÍF í sundi tólfta árið í röð um síðustu helgi. Þetta árið fór mótið fram með breyttu sniði þar sem keppt var um bikartitil ÍF en um leið fór einnig fram flokkamót ÍF.


Nýja fyrirkomulagið með flokka- og bikarmóti ÍF er eftirfarandi:


Keppendum er raðað í greinar eftir tímum óháð fötlunarflokkum. Verðlaun verða þó veitt eftir fötlunarflokkum og hlýtur viðkomandi sæmdarheitið „Flokkameistari í flokki Sx“.


Það félag sem er stigahæst í einstaklingsgreinum hlýtur sæmdarheitið „Bikarmeistari ÍF í sundi“. Stig eru veitt fyrir 10 efstu sætin í hverjum flokki, 1. sæti 15 stig, 2.sæti 10 stig, 3. sæti 8 stig og svo 7,6,5,4,3,2,1  


Fjörður hefur haft tögl og hagldir í bikarkeppninni núna í 12 ár, sannarlega glæsilegur árangur hjá Hafnfirðingum.


Tvö Íslandsmet féllu á mótinu en þau setti Fjarðarliðinn Hjörtur Már Ingvarsson í 50m skriðsundi (42.58 sek) og 50m baksundi (47.68 sek).


Lokastaðan í bikarkeppni ÍF 2019:

Fjörður - 845
ÍFR - 760
Ösp - 134
Nes - 124
Sundfélagið Óðinn - 32


Mynd/ Bikarmeistarar Fjarðar 2019.