Glæsilegur árangur á Íslandsmótinu í sundi


Síðastliðna helgi fór fram í Ásvallalaug í Hafnarfirði sameiginlegt Meistaramót Íslands í sundi 25m laug en á mótinu syntu allir bestu sundmenn landsins, fatlaðir og ófatlaðir.


Glæsilegur árangur náðist í flokkum fatlaðra á mótinu þar sem þeir félagar Már Gunnarsson og Róbert Ísak Jónsson fóru mikinn í lauginni og settu Íslandsmet í sínum flokkum en það gerði einnig Thelma Björg Björnsdóttir. Aðrir sundmenn úr röðum fatlaðra stóðu sig einnig með prýði og voru allir að synda nálægt sínum bestu persónulegu tímum.
 

Hafnfirðingurinn ungi Róbert Ísak Jónsson, SH og keppir í flokki þroskahamlaðra S14, náði þeim árangri að synda sig inn í úrslit í flokki ófatlaðra bæði í 100m flugsundi og 400m fjórsundi. Í úrslitunum gerði hann sér síðan lítið fyrir og nældi sér í brons- og silfurverðlaun. Bronsverðlaunin vann hann í 100m flugsundi sem hann synti á 59.12sek sem jafnframt er nýtt Íslandsmet í flokki þroskahamlaðara. Í 400m fjórsundi gerði hann enn betur þegar hann hafnaði í öðru sæti á nýju glæsilegu Heims- og Íslandsmeti 4:42.63mín. Beðið er staðfestingar á Heimsmetinu - sannarlega glæsilegur árangur Hafnfirðingsins unga.  
 

Már Gunnarsson, ÍRB, sem keppir í flokki blindra- og sjónskertra S12 gerði sér lítið fyrir og setti fimm Íslandsmet, í 100m fjórsundi á tímanum 1:20.80mín, 200m fjórsundi 2:34.75mín, 100m skriðsundi 1:01.57mín,  200m skriðsundi 2:13.67mín og í 200m baksundi á 2:27.48mín.
 

Þá setti Thelma Björnsdóttir, ÍFR nýtt Íslandsmet í 100m skriðsundi flokki S5 sem hún synti á 1:24.00mín.
 

Úrslit mótsins má sjá hér