Íþróttafélagið Ösp með öflug knattspyrnulið á Íslandsleikunum og margra ára uppbyggingarstarf að baki


Kyndilhlaup lögreglumanna setti svip á leikana á Þróttarvellinum sem voru hluti af dagskrá í Laugardalnum í tilefni íþróttaviku Evrópu ,, Beactive". Varaformaður KSI, Guðrún Inga Sívertsen setti leikan. Liðsmenn Aspar röðuðu sér í efstu sætin og góð tilþrif sáust á vellinum. það voru dómarar frá KSÍ sem afhentu verðlaun en frá upphafi hafa dómarar frá KSÍ séð um dómgæslu á þessum leikum. Islandsleikar Special Olympics eru árlegt samstarfsverkefni IF/Special Olympics á íslandi og KSÍ. Þeir Guðlaugur Gunnarsson og Dagur Dagbjartsson hafa verið aðaltengliðir við KSÍ og þeim og KSÍ er þakkað mikilvægt samstarf.

það var íþróttafélagið Ösp sem átti öll fjögur liðin sem mættu til leiks frá aðildarfélögum ÍF Íslandsleika Special Olympics á sunnudag.Liðsmenn frá öðrum aðildarfélögum ÍF sem ekki standa fyrir knattspyrnuæfingum voru í hópnum og tvö lið frá FC Sækó mættu til leiks. Keppt var í einum styrkleikaflokki, tveimur riðlum. Darri Mchahon, þjálfari hjá Ösp hefur verið mikilvægur liðsmaður og hefur aðstoðað KSÍ og IF/Special Olympics á Íslandi við kynningarstarf en það er mikilvægt að allir eigi möguleika á því að velja knattspyrnu, sé áhugi á því. Unnið hefur verið að því að efla fræðslu fyrir knattspyrnuþjálfara og í samstarfi við KSÍ var haldinn fundur á Akureyri í vor þar sem rætt var við ýmsa aðila með það að markmiði að efla knattspyrnustarfið.Vonast er til þess að fleiri lið mæti á næstu leika, jafnt konur sem karlar geta verið í liðum og tækifæri erlendis til keppni eru margvísleg.