Már í úrslit á nýju Íslandsmeti


Fjórði keppnisdagur á EM fatlaðra í sundi er hafinn, undanrásum er lokið og báðir okkar fulltrúar tryggðu sér miða í úrslit kvöldsins en það voru sundmennirnir Már Gunnarsson og Guðfinnur Karlsson. Már tók sig til og fór inn í úrslit á nýju Íslandsmeti!


Már Gunnarsson, ÍRB, varð sjöundi inn í úrslit í kvöld þegar hann synti á 1:11.73 mín. í undanrásum í 100m baksundi í flokki S12 (blindir/sjónskertir). Tími Más í undanrásum var nýtt Íslandsmet en sjálfur átti Már fyrra metið sem hafði staðið síðan í apríl á þessu ári og var 1:13.23 mín. og því um glæsilega bætingu að ræða!


Guðfinnur Karlsson, Fjörður, landaði 8. sæti í undanrásum í 100m baksundi S11 (alblindir) þegar hann kom í bakkann á 1:29.54 mín. Guðfinnur er því í úrslitum þriðju greinina í röð á sínu fyrsta Evrópumeistaramóti á ferlinum! Hann á nokkuð í land með Íslandsmetið sem staðið hefur frá 1999 og er í eigu Birkis Rúnars Gunnarssonar en tíminn er 1:17.53 mín.

Mynd úr safni/ Már Gunnarsson ásamt þjálfara sínum Steindóri Gunnarssyni.