Íslenski hópurinn hitti Parsons: Már og Guðfinnur í 8. sæti


Fjórða keppnisdegi á EM í Dublin er lokið en í kvöld kepptu þeir Már Gunnarsson og Guðfinnur Karlsson í úrslitum í 100m baksundi. Þá hljóp á snærið hjá íslenska hópnum sem hitti forseta IPC, Andrew Parsons, í Dublin.


Már Gunnarsson, ÍRB, hafnaði í 8. sæti í úrslitum í kvöld í 100m baksundi S12 (blindir/sjónskertir). Már sem í undanrásum í morgun setti nýtt og glæsilegt Íslandsmet í greininni synti nánast á sama tíma í kvöld. Í morgun kom hann í bakkann á tímanum 1:11.73 mín. en í úrslitum synti hann á 1:11.74 mín. og hafnaði í 8. sæti.


Guðfinnur Karlsson, Fjörður, varð einnig áttundi í úrslitum í kvöld er hann synti á 1:32.04 mín. í 100m baksundi S11 (alblindir) en þar var hann nokkuð frá tíma sínum í undanrásum í morgun sem var 1:29.54 mín.


Íslenski hópurinn varð svo þess heiðurs aðnjótandi í kvöld að hitta Andrew Parsons forseta Alþjóða Ólympíhreyfingar fatlaðra (IPC) í Dublin í kvöld. Parsons tók við forsæti hjá IPC árið 2017 af Sir Phillip Craven en Parsons kemur frá Brasilíu og er m.a. fyrrum framkvæmdastjóri Íþróttasambands fatlaðra í Brasilíu (NPC Brazil).


Þá má einnig geta þess að formaður ÍF, Þórður Árni Hjaltested, er kominn til Dublin og hefur þegar stutt íslensku keppendurna dyggilega í stúkunni.


Mynd/ Íslenski keppendahópurinn með Andrew Parsons í Dublin í kvöld.