Már fimmti á nýju Íslandsmeti í gærkvöldi


Fyrsta keppnisdegi á EM fatlaðra í sundi lauk í Dublin í gærkvöldi þar sem Már Gunnarsson frá ÍRB í Reykjanesbæ setti nýtt og glæsilegt Íslandsmet í 400m skriðsundi S12 (sjónskertir/blindir).


Íslandsmet Más í greininni var 4:59.56 mín. fyrir sundið í gær. Már stórbætti Íslandsmetið er hann kom í bakkann á 4:52.04 mín. og hafnaði í 5. sæti í greininni. Glæsilegur árangur, til hamingju með Íslandsmetið Már!


Hjörtur Már Ingvarsson, Fjörður, hafnaði í 8. sæti í úrslitum í 200m skriðsundi og hið nánast ómögulega gerðist þar sem hann synti á nákvæmlega sama tíma í úrslitum og undanrásum eða 3:16.05 mín. mögnuð tilviljun. Þá féll heimsmet í greininni því Ítalinn Francesco Bocciardo kom í bakkann á tímanum 2:23.65 mín. sem er glæsilegur árangur en Bocciardo átti fyrra metið frá júní á þessu ári sem var 2:24.25 mín.


Róbert Ísak Jónsson hafnaði í 7. sæti í úrslitum í 100m bringusundi sem var góð bæting frá undanrásum en í þessari grein eru menn að synda á undir 1:08.00 mín. fyrir verðlaunum svo það fer ekkert á milli mála hvert Róbert þarf að stefna. Núverandi Íslandsmet Róberts í greininni er 1:10.10 mín.


Fjörið heldur áfram í dag en þá hefja Sonja Sigurðardóttir, ÍFR, og Guðfinnur Karlsson, Fjörður, leik á mótinu. Sonja keppir í 50m skriðsundi S4 og Guðfinnur í 100m bringsundi S11. Einnig í lauginni í dag eru Hjörtur Már Ingvarsson í 200m fjórsundi og 50m baksundi og Róbert Ísak Jónsson í 200m skriðsundi.


Hægt er að fylgjast með mótinu í beinni útsendingu á Facebook-síðu ÍF.