Guðfinnur í úrslit á sínu fyrsta stórmóti!


Undanrásum annars keppnisdags er lokið á EM í Dublin þar sem sundmaðurinn Guðfinnur Karlsson varð áttundi inn í úrslit í 100m bringusundi í flokki alblindra (S11). Guðfinnur er að keppa á sínu fyrsta stórmóti og gerði vel að ná að komast í úrslit í sínu fyrsta sundi. Guðfinnur kom í bakkann á tímanum 1:31.25 mín. en Íslandsmetið í greininni á Birkir Rúnar Gunnarsson og hefur metið staðið frá árinu 1997.


Hjörtur Már Ingvarsson, Fjörður, var dæmdur úr leik í 200m fjórsundi í flokki SM5/SM6 en Hjörtur lét það ekki slá sig út af laginu heldur setti hann skömmu síðar nýtt Íslandsmet í 50m baksundi S5! Hjörtur kom þá í bakkann á 49.88 sek. og bætti þar með metið sitt sem hafði staðið síðan í júní á opna þýska meistaramótinu sem var 52,95 sek. Til hamingju með metið Hjörtur! Þrátt fyrir glæsilega bætingu á metinu dugði það Hirti ekki inn í úrslit að þessu sinni.


Þá fer Sonja Sigurðardóttir beint í úrslit í kvöld í 50m skriðsundi í flokki S4 (hreyfihamlaðir). Ísland á því tvo sundmenn í úrslitum í kvöld en það eru þau Guðfinnur Karlsson og Sonja Sigurðardóttir.


Róbert Ísak Jónsson átti að keppa í 200m skriðsundi í morgun en fékk ekki að keppa þar sem breyting í dagskrá olli því að íslenski hópurinn kom seint á mótsstað. Svo virðist vera sem að einhver misbrestur hafi orðið á dagskránni sem gefin var út í gærkvöldi og þeirri sem var endurbirt í morgun með tilliti til metfjölda flokkunarmála sem hafa áhrif á mótið. Þetta árið hefur Alþjóða Ólympíhreyfing fatlaðra staðið í ströngu við að endurflokka hreyfi- og þroskahamlaða íþróttamenn og í Dublin hefur það m.a. gert það að verkum að stöku undanrásir hafa fallið niður. Samkvæmt upplýsingum ÍF hefur gætt nokkurrar óánægju með þann fjölda sem þarf að flokka við mótið og mun Ísland ekki vera eina þjóðin sem er að súpa seyðið af þeim aðgerðum og afleiðingum sem það hefur nú haft á sundmenn og dagskránna. Að öðru leyti hefur ÍF fregnir af því að vel sé staðið að mótinu.