EM í sundi hafið í Dublin! Þrír í úrslitum í kvöld.


Evrópumeistaramót fatlaðra í sundi er hafið í Dublin. Ísland sendir sex keppendur til leiks á mótinu og fjögur þeirra hófu leik í morgun í undanrásum. Hægt verður að fylgjast með motinu í beinni útsendingu á Facebook-síðu ÍF.


Hjörtur Már Ingvarsson, Fjörður, varð áttundi inn í úrslit í 200m skriðsundi í morgun. Hjörtur synti á tímanum 3:16.05 mín. í undanrásum en Íslandsmet hans í greininni er 3:10.84 mín. Thelma Björg Björnsdóttir, ÍFR, varð níunda í undanrásum í 50m skriðsundi á tímanum 39.65 sek. og missti því naumlega af úrslitum í kvöld. Íslandsmet Thelmu í greininni er 39,44 sek en hún hefði þurft að fara undir 39 sekúndur til að eiga möguleika á sæti í úrslitum í kvöld.


Róbert Ísak Jónsson, Fjörður, var síðastur í íslenska hópnum til að taka þátt í undanrásum í morgun og varð hann sjöundi inn í úrslit í 100m bringusundi. Róbert synti á 1:13.01 mín. en Íslandsmet hans í greininni er 1:10.10 mín. Til að eiga raunhæfan möguleika á því að berjast um sæti á verðlaunapalli er ljóst miðað við tímana í greininni að Róbert þarf að bæta Íslandsmetið sitt til muna og helst synda á um það bil 1:07.00 mín.  


Már Gunnarsson, ÍRB, verður einnig í eldlínunni í kvöld í 400m skriðsundi í flokki blindra og sjónskertra (S12) en sú grein fór beint í úrslit með sjö skráða þátttakendur. Íslandsmet Más í greininni er 4:59.56 mín. en hann þarf að spýta vel í lófana ef hann ætlar sér á pall í kvöld þar sem Úkraínumaðurinn Iaroslav Denysenko er skráður til leik með besta tímann 4:06.98 mín.


Auk ofangreindra eru Sonja Sigurðardóttir, ÍFR, og Guðfinnur Karlsson, Fjörður, við keppni á mótinu en Sonja og Guðfinnur hefja keppni á morgun.


Mynd/ Frá keppnishöllinni í Dublin.