Patrekur setti tvö ný Íslandsmet í París!


Spretthlauparinn Patrekur Andrés Axelsson frá frjálsíþróttadeild Ármanns er nýkominn heim frá París þar sem opna franska meistaramótið fór fram. Patrekur kom heim með tvö ný Íslandsmet í farteskinu en hann hleypur í flokki T11 (alblindir).


Patrekur bætti þar með tímana sína frá opna ítalska meistaramótinu en þar hafði hann sett Íslandsmet í sömu greinum í maímánuði svo það er nokkuð ljóst að það er rjúkandi gangur á frjálsíþróttamanninum. Aðstoðarhlaupari Patreks heitir Andri Snær Ólafsson en þeir félagar sóttu franska meistaramótið ásamt Kára Jónssyni sem er annar tveggja yfirmanna landsliðsmála hjá Íþróttasambandi fatlaðra.


Íslandsmet Patreks í Frakklandi:


100m hlaup: 12.23 sek - nýtt Íslandsmet
200m hlaup: 25,37 sek - nýtt Íslandsmet


Næst á dagskrá er opna þýska meistaramótið í Berlín þar sem Ísland mun tefla fram þónokkrum keppendum en það fer fram mánaðarmótin júní-júlí og verður síðasta keppni íslenskra frjálsíþróttamanna á erlendum vettvangi þetta sumarið áður en Evrópumeistaramótið fer fram en það verður líka í Berlín.