Vel heppnað Norðurlandamót í Færeyjum


Íslenska landsliðið í boccia er komið heim frá Færeyjum þar sem Norðurlandamótið fór fram á dögunum. Ferðin gekk vel þó svo Íslendingar hafi ekki átt spilara að þessu sinni sem náðu á pall.


Mótið gekk vel í framkvæmd heimamanna í Færeyjum og unnust nokkrir leikir hjá íslensku keppendunum sem er þónokkur framför frá mótinu 2016 þar sem Íslenska hópnum gekk erfiðlega. Sigrún Friðriksdóttir vann nokkra leiki á mótinu og var steinsnar frá því að tryggja sér sæti í úrslitum en það hafðist ekki að sinni. Þá vann Aðalheiður Bára Steinsdóttir einn leik og stóð sig með mikilli prýði þrátt fyrir að vera í flokki með keppendum sem hafa mun meiri styrk í höndum en hún. Að öðru leiti var þetta lærdómsrík ferð þar sem merkja mátti stöðuga þróun í búnaði hjá rennuspilurum. Þar þurfum við hér á landi að gera stórátak.
 
Næsta Norðurlandamót fer fram í Noregi 2020.