Viðurkenningar veittar vegna PyeongChang 2018


Mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, bauð til móttöku sunnudaginn 8. apríl sl. til að heiðra þá keppendur sem kepptu á Vetrarólympíuleikunum og Vetrar-Paralympics í PyeongChang 2018. Að því tilefni var keppendum og öðrum þátttakendum veittar viðurkenningar frá mótshöldurum, Alþjóðaólympíuhreyfingunni og ÍSÍ.


Lilja Alfreðsdóttir bauð hópinn velkominn og sagði frá sinni upplifun á að hafa verið viðstödd Ólympíuleikana í Kóreu. Hún þakkaði keppendum fyrir þeirra framlag og fyrir að vera þær mikilvægu fyrirmyndir annara íþróttamanna sem stefna langt í sinni íþróttagrein. Bað hún fyrir kveðjur frá Ásmundi Einari Daðasyni, félags- og jafnréttismálaráðherra, sem gat ekki verið viðstaddur móttökuna, en hafði eins og hún upplifað leikana í Kóreu, en Ásmundur Einar var viðstaddur Vetrar-Paralympics leikana.


Lárus L. Blöndal, forseti ÍSÍ, og Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri ÍSÍ, afhentu þátttakendum á Vetrarólympíuleikunum viðurkenningar og þeir Þórður Árni Hjaltested, formaður Íþróttasambands fatlaðra, og Ólafur Magnússon, framkvæmdastjóri afrekssviðs Íþróttasambands fatlaðra, afhentu þátttakendum á Vetrar-Paralympics viðurkenningar.