Ólympíumeistari í blaki með skýr skilaboð til þjálfara og íþróttafólks


Dagana 23. – 25. mars fór fram á Húsavík athyglisvert námskeið, um þjálfun barna og unglinga og leiðina til árangurs í íþróttum. Það er óhætt að segja að skilaboð til þjálfara voru skýr; langtímamarkmið, skemmtilegar æfingar við hæfi hvers og eins og keppnisferill sem miðaður er við 16 ára aldur. Iðkendur fengu skýr skilaboð um að hafa trú á sér og líta á mistök sem mikilvægan lærdóm á leið að markmiði. Vladimir Vanja Gribic, Ólympíumeistari í blaki og Global Ambassador Special Olympics var leiðbeinandi á námskeiðinu sem bar yfirskriftina Frá grunni í gull

Valdimir Grbic er fyrrum atvinnumaður í blaki, menntaður íþróttafræðingur og er í framhaldsnámi með áherslu á hreyfifræði. Hann hefur haldið fyrirlestra og námskeið víða um Evrópu, bæði fyrir íþróttafélög og fyrirtæki. Megináherslan auk sérhæfðrar blakþjálfunar er á jákvæðan liðsanda og liðsheild, en einnig á að hámarka árangur einstaklingsins. Grbic er sendiherra Special Olympics í blaki (unified) en þar æfa og keppa saman fatlaðir og ófatlaðir.  Markhópar námskeiðsins voru þjálfarar og börn og unglingar 10 til 18 ára.

Sladjana Smiljanic blakþjálfari hjá Völsungi var hvatamaður að verkefninu en hún er frá sama bæ í Serbíu og Grbic. 

Á föstudagskvöldið var fyrirlestur þar sem Grbic fór yfir ýmsa þætti sem skipta máli í þjálfun og hvernig má virkja börn og unglinga til þátttöku með því að beina augum að upplifun þeirra af æfingum og greina hvern þátt sem haft getur áhrif á árangur og áhuga. Að mati Grbic er fjöldi æfinga marklaus ef iðkandi skilur ekki tilgang æfingarinnar, skortir einbeitingu eða áhuga til að leggja sig fram. Horft var sérstaklega á þætti sem stuðla að aukinni hreyfifærni, samhæfingu, félagsfærni og sterkri sjálfsmynd. Þátttakendur þurftu að taka virkan þátt í umræðum og leggja fram spurningar.

Á laugardag og sunnudag voru verklegar æfingar, fyrri hlutinn, á laugardag, tengdist efni fyrirlestursins og þjálfun þvert á greinar en á sunnudag var sérhæfð blakþjálfun. Um 40 börn tóku þátt í námskeiðinu þar af 10 börn með sérþarfir. Börnin og unglingarnir voru alsæl með námskeiðið og fengu mikla hvatningu til að gera sitt besta og hafa trú á styrkleikum sínum.

Þátttakendur á námskeiðinu komu m.a. frá Húsavík, Dalvík, Höfn í Hornafirði, Neskaupsstað og Mosfellsbæ. Í hópi þjálfara var fyrrum atvinnumaður í blaki og fremstu þjálfarar landsins í blaki sem vildu nýta þetta tækifæri til að bæta við þekkingu sína. Þjálfarar voru mjög áhugasamir, aðstoðuðu við æfingar og fóru yfir helstu atriði með Grbic á fundi að loknum verklegum æfingum báða dagana.

Verkefnið, sem styrkt var af Ólympíusamhjálpinni, var samstarfsverkefni Blakdeildar Völsungs, BLÍ og ÍF / Special Olympics á Íslandi.

Til hamingju Sladjana, undirbúningsnefnd og blakdeild Völsungs með þetta metnaðarfulla verkefni.