Róbert annar í 100m baksundi á nýju Íslandsmeti


Róbert Ísak Jónsson vann sín önnur silfurverðlaun í nótt á heimsmeistaramóti fatlaðra í 50m sundlaug sem nú stendur yfir í Mexíkó. Róbert átti í harðri baráttu við Bandaríkjamanninn Lawrence Sapp um gullið en Róbert kom í bakkann á nýju Íslandsmeti 1:06.99 mín. Sapp sem hrifsaði til sín gullið var aðeins örfáum sekúndubrotum á undan Róberti í bakkann eða á 1:06.42 mín.


Þá varð Már Gunnarsson sjöundi í úrslitum í 200m fjórsundi í flokki S13 en Már er flokkaður í keppni S12 en keppir í völdum greinum með sundmönnum sem hafa meiri sjón (S13). Og þá varð Sonja Sigurðardóttir í áttunda sæti í úrslitum í 50m skriðsundi í flokki S4.


Úrslit næturinnar:


Róbert Ísak Jónsson: 100m baksund - silfur
2. sæti: 1:06.99 mín (Íslandsmet)
Róbert bætti sitt eigið Íslandsmet í greininni sem staðið hafði síðan í aprílmánuði 2017 og var 1:07.81 mín.


Már Gunnarsson: 200m fjórsund S13
7. sæti: 2:43.04 mín.


Sonja Sigurðardóttir: 50m skriðsund S4
8. sæti: 1:02.26 mín


Már hefur lokið keppni og heldur heim til Íslands í dag en Róbert, Sonja og Thelma Björg keppa öll þennan síðasta keppnisdag. Róbert í 100m flugsundi, Thelma í beinum úrslitum í 50m skriðsundi og Sonja í beinum úrslitum í 150m þrísundi.


Mynd/ Íslenski hópurinn á keppnisstað í Mexíkó.