Snævar Örn fór mikinn í Berlín og ryður brautina í nýjum flokki VIRTUS


Sundmaðurinn Snævar Örn Kristmannsson frá ÍFR tók nýverið þátt á IDM Berlin sundmótinu (opna þýska meistaramótið) þar sem hann gerði gott mót og bætti sinn besta persónulega árangur í fimm greinum!


Á IDM Berlin keppti Snævar í AB flokki en hérlendis keppir hann í flokki S15 sem er flokkur sundmanna með einhverfugreiningu en Snævar greindist með dæmigerða einhverfu ríflega tveggja ára og ADD 7 ára. Árið 2023 vann Snævar Sjómannabikarinn á Nýárssundmóti ÍF en sá bikar er afhentur þeim einstaklingi sem vinnur besta afrek mótsins en mótið er aðeins fyrir 17 ára og yngri og hefur Sjómannabikarinn verið afhentur óslitið frá árinu 1984!
 

Snævar tók þátt á IDM Berlín í fyrsta sinn sumarið 2023 þar sem hann náði í tvö silfur og tvö brons í flokki unglinga og ein verðlaun í flokki fullrðinna. Þetta árið var Snævar mættur til leiks í hvorki meira né minna en sjö greinum.
 

Hann synti til úrslita tvisvar sinnum og náði 3. sætinu í 100 m flugsundi. Hann er búinn að bæta tímana sína talsvert á einu ári eða frá ca 1 sekúndu og upp í 5 sekúndur og náði að þessu sinni 5 persónulegum metum í sundum og nálægt sínu besta í tveimur sundgreinum.
 

Hann synti 100m skriðsund á 58.96sek., 200 m skriðsund á 2.10.06mín, 50m flugsund 27.34sek, 100 m flugsund á 1.01.08mín. og 200 m fjórsund á 2.31.41mín sem eru allt bætingar. En í júnímánuði eitt ár frá því þegar hann vann gullið á Global Games í 200m flugsundi í flokki ii3 hja Virtus. Global Games eru heimsleikar VIRTUS og eru haldnir fjórða hvert ár og því stærsta íþróttamót í heimi þar sem VIRTUS íþróttamenn koma saman. Á Global Games 2023 varð Snævar fyrstur Íslendinga til þess að keppa í flokki 3 í sundi og þar stóð hann sig með miklum sóma og kom heim til Íslands með verðlaun í farteskinu.
 

Í ljósi aðstæðna er ekki úr vegi að skýra betur hér stöðu íþróttamanna VIRTUS sem hafa ekki allir sama aðgengisrétt að stærstu afreksmótum heims í íþróttum fatlaðra.
 


Snævar er einn þeirra fjölmörgu íþróttamanna í heiminum sem fellur ekki undir viðmið IPC (Alþjóða Ólympíuhreyfing fatlaðra) fyrir keppni í flokki einstaklinga með þroskahamlanir, í hans tilfelli flokk S14. Mót á borð við Paralympics, HM og EM bjóða aðeins upp á keppnir fyrir einstaklinga í flokki S14 en það eru einstaklingar sem hafa farið í 75 stig eða neðar á greindarprófum. Þau viðmið eru byggð á rannsóknum og tilmælum World Health Organisation ásamt fleiri stofnunum.


Fyrir vikið eru íþróttamenn eins og Snævar skráðir hjá VIRTUS sem eru heimssamtök íþróttafólks með þroskahamlanir, Downs heilkenni og einhverfu. VIRTUS heldur fjölda móta en aðeins einstaklingar hjá VIRTUS með greind mælda upp á 75 IQ eða neðar eiga möguleika á því að keppa á Paralympics, HM eða EM. Þannig skiptir VIRTUS sínu íþróttafólki upp í þrjá mismunandi hópa sem eru:


Hópur 1: S14 með 75 IQ eða lægra (hafa þátttökuheimild á Paralympics, EM,HM)
Hópur 2: Einstaklingar með Downs-heilkenni, CP eða sjónskerðingar auk greindarskerðingar (hafa þátttökuheimild á Paralympics, EM, HM en eru vissulega að glíma við meira en eina takmörkun og því hafa einstaklingar úr þessum hópi verið einstaklega fáir á stórum afreksmótum)
Hópur 3: Einstaklingar sem skora yfir 75IQ en greinast með einhverfu eða Autisim Spectrum Disorder og þurfa greiningu frá viðurkenndum meðferðaraðila. (Hafa ekki þátttökurétt á Paralympics, EM eða HM í dag þar sem greindarskor þeirra fer yfir 75 IQ).


Þó skal tekið fram að hópur 3 er einstaklega fjölmennur á heimsvísu en um leið er hann mjög nýr af nálinni hjá alþjóðasamtökunum VIRTUS og því eru verkefni þessa hóps enn af skornum skammti. Mótshaldarar á borð við IDM Berlin hafa þó sýnt þessu skilning og því hafa afreksmenn eins og Snævar getað tekið þátt í mótinu og vonir standa til þess að verkefnum þessa hóps fari fjölgandi með ári hverju.


Á Íslandi hefur Íþróttasamband fatlaðra tekið meðvitaða ákvörðun um að tryggja öllum keppendum rétt til þátttöku í mótahaldi ÍF. Það mun taka lengri tíma að sannfæra alþjóðasamfélagið um mikilvægi þess að finna rými til þátttöku fyrir flokka eins og hóp 3 en Ísland hefur um árabil verið virkur meðlimur í VIRTUS samtökunum og því standa vonir til að málefni þessa hóps geti orðið í sterkari umgjörð með ári hverju.


Ofangreint sýnir að Snævar og reyndar fleiri íþróttamenn á Íslandi eru að ryðja brautina fyrir flokk/hóp 3 hjá VIRTUS en verða vonandi mun meira áberandi í allra nánustu framtíð.


Hér er hægt að skoða heimasíðu VIRTUS og glöggva sig nánar á samtökunum og flokkaskiptingu þeirra í íþróttum en VIRTUS er fjölgreinasamband og þeirra stærsta verkefni er eins og áður hefur komið fram Global Games en þeir leikar fara alltaf fram ári fyrir Paralympics.