Hvers vegna er minni áhersla lögð á skipulagða hreyfingu leikskólabarna?


Heilsuleikskólinn Skógarás, Ásbrú, Reykjanesbæ,  hefur frá  2015, unnið með ÍF og Special Olympics á Íslandi að innleiðingu YAP sem byggir á æfingakerfi til hreyfiþjálfunar ungra barna.  Ásta Katrín Helgadóttir, íþróttakennari í Skógarási tók saman grein um YAP og hreyfiþjálfun barna í Skógarási og hér birtist lokatexti greinarinnar; 

Fram kemur í fyrirlestri Hermundar Sigurmundssonar  (prófessor í lífeðlisfræðilegri sálfræði við Háskólann í Þrándheimi og við Háskólann í Reykjavík)   „Kveikjum neistann“, þar sem hann ræðir m.a. um taugavísindi og menntun, að það séu þrír lykilþættir sem þarf til að viðhalda taugakerfinu og þ.a.l. hæfileikanum til að læra. Þar nefnir hann fyrst af öllu hreyfingu og leggur mikla áherslu á að skólar verði að auka vægi hreyfingar, hinir þættirnir séu tengsl/ samvera og ástríða fyrir að læra nýjan hlut.

Hvers vegna er minni áhersla lögð á markvissa skipulagða daglega hreyfingu leikskólabarna?

Er það þekkingarleysi/vanmat á mikilvægi hreyfiþáttarins í námi barna?

Vantar íþróttafræðinga/kennara inn á leikskólana sem  tíma og rúm til að sinna hreyfingu barna?

Vantar efni eða hugmyndir til að styrkja þá sem hafa áhuga innan leikskólans?

Við á Heilsuleikskólanum Skógarási höfum nýtt  YAP efnið með góðum árangri. Það er einfalt, aðgengilegt og þarfnast ekki mikils undirbúnings eða áhalda. Efnið er tilbúið og það eina sem þarf að gera er að BYRJA. Að nýta efnið léttir starfið til muna, það hjálpar börnunum að bæta hreyfiþroska, það eykur gleði barna og starfsfólks og við sem starfsfólk leikskólanna kynnumst börnunum á nýjan hátt og börnin kynnast okkur einnig á annan hátt.   Ef að efni og hugmyndir vantar til að byrja skipulagðar hreyfistundir á leikskólum landsins þá er YAP  - efnið svarið.  

 

Grein; Ásta Katrín Helgadóttir, íþróttakennari heilsuleikskólanum Skógarási;   

Heilsuleikskólinn Skógarás hefur heilsueflingu að leiðarljósi í einu og öllu í sínu skólastarfi.

Skólinn býður börnum upp á kærleiksríkt og öruggt umhverfi, þar sem einstaklingurinn fær að njóta sín, hver á sinn hátt. Við venjum nemendur við heilbrigðan lífsstíl og vonum að það muni fylgja þeim inn í fullorðinsárin. Til að tryggja fjölbreytta hreyfimöguleika barnanna, fara þau öll 2x í viku í  skipulagða hreyfistund og auk þess í mikla útiveru daglega.

Skólinn starfar eftir hugmyndafræði Heilsustefnu Unnar Stefánsdóttur og er þátttakandi í verkefni embætti landlæknis Heilsueflandi leikskóli. Markmið skólans er að stuðla að heilsueflingu leikskólasamfélagsins með áherslu á næringu, hreyfingu og sköpun í leik.

Öll börn ættu að alast upp við það að læra að virða heilsu sína og annarra sem ómetanlegt verðmæti og grundvöll fyrir fullnægjandi lífi.

 

Börn fá yfirleitt ekki nægilega mikla hreyfingu og eiga um eitt af hverjum tíu börnum við hreyfivanda að stríða þegar þau byrja í grunnskóla. Auk þessa hafa kannanir sýnt að sé samhæfing hreyfinga hjá barni ekki nægilega góð er það líklegra til að þurfa sérkennslu í lestri en þau börn sem hafa eðlilegan hreyfiþroska (Berghildur Erla Bernharðsdóttir, 2006:36 - 37).

 

Undanfarin 5 ár höfum við á Heilsuleikskólanum Skógarás verið í samstarfi við Special Olympics á Íslandi og nýtt okkur efni sem Alþjóðasamtökin hafa gefið út sem heitir YAP eða Young athlete project.  Þar er ekki verið að finna upp hjólið heldur er búið að setja saman einfalt og skemmtilegt æfingakerfi. Þetta efni er afurð af rannsóknum tveggja háskóla í Bandaríkjunum, um hvað hentar best í hreyfiþjálfun ungra barna og barna með frávik. Við höfum svo sannarlega notið góðs af efninu og aðlagað að starfinu okkar, í hreyfisal, í vettvangsferðum og einnig inni á deildum skólans þar sem starfsmenn geta notað það til tilbreytingar og fléttað saman við hið hefðbundna starf.

 

Öll hreyfing í Skógarás miðast við að þjálfa börnin á sem fjölbreyttastan hátt og tekur mið af þörfum einstaklingsins og/eða hópsins sem verið er að vinna með í hvert skipti. Reynt er að gera hreyfistundirnar sem skemmtilegastar til að upplifunin sé góð og fjölbreytileiki æfinga mikill. 

 

Hreyfiþroskapróf eru lögð fyrir og staða hvers barns metin út frá þeim. Ef niðurstöður sýna að barn þarfnast sérstakrar þjálfunar með einhverja þætti hreyfiþroskans, er viðeigandi æfingum bætt inn í hreyfistundir hópsins með öðrum æfingum og þannig þjálfast sá einstaklingur án þess að athyglinni sé beint sérstaklega að viðkomandi.

Þeir einstaklingar sem þarfnast enn meiri þjálfunar eru teknir aukalega 2x í viku og bætt við sérhæfðum æfingum sem innihalda aukið áreiti á heila. Þetta er gert með þeim hætti að barnið upplifir að þetta sé eðlilegur hluti af skóladeginum að koma í aukahreyfingu. 

 

Það að hreyfiþroski barns sé svo skertur að hann hamli eðlilegum hreyfingum líkt og um fötlun sé að ræða, hefur í för með sér skerta námsgetu og einbeitingu til náms. Sem dæmi má nefna að börn með lága vöðvaspennu eiga t.d. erfitt með að sitja upprétt á stól, erfitt með grip á skriffærum, þau eiga erfitt með að stjórna augnhreyfingum s.s. að fylgja eftir línu í bók til að lesa eða þegar þau líta upp og þurfa svo að líta aftur niður þegar þarf að skrifa eftir töflu eða miða sem er fyrir framan þau.  Þau eiga einnig í erfiðleikum með ýmsar athafnir daglegs lífs s.s. greiða sér, borða með skeið, gaffli og hníf einnig eiga þau í erfiðleikum með að hneppa fötunum sínum.
Þessir einstaklingar eiga þ.a.l. erfiðara með að læra að lesa, læra stafi, skrifa o.s.frv. þar sem að einbeiting þeirra fer mest í að sitja á stólnum og reyna að halda utan um skriffæri eða að reyna að finna aftur stafinn sem þau voru að reyna að lesa. Þess vegna er svo mikilvægt að börn í leikskóla fái markvissa hreyfiþjálfun, til að þau séu sem best undirbúin fyrir frekara nám er í grunnskóla er komið. Að sama skapi ef einstaklingur sem hefur fengið góða hreyfiþjálfun en á samt í einhverskonar vanda er varðar nám, málþroska eða hegðun, er hægt að útiloka líkamlega þáttinn og athuga hvaða aðrar hindranir eru í vegi barnsins. 

 

Sérhvert barn í heiminum hefur sinn eigin tímaramma þegar kemur að vexti og þroska. Bæði erfðir og umhverfi hafa áhrif þar á. Þróun á hreyfiþroska verður skref fyrir skref, alltaf í sömu röð og ekkert skref má vanta í röðinni (Moen og Jacobsen, 2007:103; Aldís Guðmundsdóttir, 1997:128). 

 

Yngstu börnin (18mán-2ára) sem koma ný inn í leiksskólann á haustin sýna miklar framfarir á nokkrum viku, ótrúlegir hlutir gerast þegar byrjað er með þau svona ung og markvisst verið að þjálfa og styrkja grunnþætti.  Við notum mikið ójafnt undirlag með misþykkum dýnum/púðum og hluti sem þarf að  stíga upp og niður af, þar sem þau eru yfirleitt vön hörðu sléttu undirlagi er mikilvægt að þau kynnist misjöfnu/misháu undirlagi til að bæta jafnvægi og styrk.   Í fyrstu eru þau afar völt, jafnvægislítil og óörugg í brautinni, en á nokkrum  vikum hefur færni þeirra aukist til muna, þau ganga og hoppa af miklu öryggi og styrk yfir/uppá  hvaða undirlag sem er.

Það er líka sjáanlegur og mælanlegur munur á börnum sem koma frá öðrum leikskólum, inn á eldri deildar skólans. Hreyfiþroski, áræðni, úthald, þol og öryggi í hreyfingum er ekki eins mikið.

 

 Flest þeirra barna sem hafa verið í aukaþjálfun á Skógarás hafa sýnt góðar framfarir. Hreyfifærni þeirra hefur batnað sem og úthald og hegðun í æfingum.

Lögð er áhersla á grunnþætti hreyfingar sem og æfingar sem krefja þau um að framkvæma æfingu og segja orð eða syngja með t.d. hoppa yfir litaða baunapoka og segja á sama tíma litinn á pokanum. Þar sem flest af börnunum sem eru í aukaþjálfun eiga það sameiginlegt að eiga í erfiðleikum með mál og tjáningu þá eru þetta æfingar sem skipta miklu máli, en með þeim er verið setja aukna örvun á starfsemi heilans.

 

Þegar slegið er inn orðið snemmtæk íhlutun á leitarvefi, þá koma upp ótal síður þar sem talað er um mikilvægi snemmtækrar íhlutunar í málþroska og læsi, en örfáar um snemmtæka íhlutun í hreyfingu barna og eru þær þá oftast í formi lokaritgerða sem nemendur í Háskóla hafa skrifað.  Í þeim kemur fram mikilvægi þess að börn á leikskólaaldri fái markvissa skipulagða hreyfingu til þess að vera sem best andlega, líkamlega og félagslega undirbúin fyrir áframhaldandi skólagöngu og grunnur  þar með lagður að áframhaldandi heilbrigðum lífsstíl sem fylgir þeim alla ævi. Með því að leggja grunn að heilbrigðum lífsstíl sem varir alla ævi erum við einnig að undirbúa og viðhalda mótstöðu er varðar lífsstílstengda sjúkdóma í framtíðinni.

Samkvæmt aðalnámskrá leikskóla eru heilbrigði og velferð ein af sex grunnþáttum menntunar. Í aðalnámskránni kemur fram að heilbrigði byggist á andlegri, líkamlegri og félagslegri vellíðan. Þar kemur einnig fram að þar sem börn eyða stórum hluta dagsins í skóla að þá þurfi allt skólastarf að efla heilbrigði og stuðla markvisst að vellíðan og velferð barnanna. Einnig kemur fram að börn eiga að fá tækifæri til að hreyfa sig frjálst jafnframt því að taka þátt í skipulagðri hreyfingu.  (Aðalnámskrá leikskóla, 2011). 

 

Fram kemur í fyrirlestri Hermundar Sigurmundssonar  (prófessor í lífeðlisfræðilegri sálfræði við Háskólann í Þrándheimi og við Háskólann í Reykjavík)   „Kveikjum neistann“, þar sem hann ræðir m.a. um taugavísindi og menntun, þar segir hann að það séu þrír lykilþættir sem þarf til að viðhalda taugakerfinu og þ.a.l. hæfileikanum til að læra,  þar nefnir hann fyrst af öllu hreyfingu og leggur mikla áherslu á að skólar verði að auka vægi hreyfingar, hinir þættirnir séu tengsl/ samvera og ástríða fyrir að læra nýjan hlut.

 

Hvers vegna er minni áhersla lögð á markvissa skipulagða daglega hreyfingu leikskólabarna?

 

Er það þekkingarleysi/vanmat á mikilvægi hreyfiþáttarins í námi barna?

 

Vantar íþróttafræðinga/kennara inn á leikskólana sem  tíma og rúm til að sinna hreyfingu barna?

Vantar efni eða hugmyndir til að styrkja þá sem hafa áhuga innan leikskólans?

 

Við á Heilsuleikskólanum Skógarás höfum nýtt okkur YAP efnið með góðum árangri, það er einfalt, aðgengilegt og það þarfnast ekki mikils undirbúnings eða áhalda til að nota það í hreyfingu. Efnið er algjörlega tilbúið og það eina sem þarf að gera er að BYRJA.

Að nýta efnið léttir starfið til muna, það hjálpar börnunum að bæta hreyfiþroska, það eykur gleði barna og starfsfólks og við sem starfsfólk leikskólanna kynnumst börnunum á nýjan hátt og börnin kynnast okkur einnig á annan hátt.

 

Ef að efni og hugmyndir vantar til að byrja skipulagðar hreyfistundir á leikskólum landsins þá er YAP  - efnið svarið.