Agata Erna Jack brýtur enn blað í dansíþróttasögu Íslands Glæsilegur fulltrúi í Graz 2021


Agata Erna Jack var fyrsti keppandinn í stjörnuflokki í samkvæmisdansi á dansmóti á vegum DSÍ sem fram fór í vor.  Nú er staðfest að hún verður  fyrsti íslenski keppandinn á dansmóti á vegum Special Olympics, DanceSport Word Championship sem fram fer í ágúst  í Graz í Austurríki. Special Olympics á Íslandi og Íþróttasamband fatlaðra hafa verið í samstarfi við DSÍ undanfarin ár þar sem horft hefur verið til aukinna tækifæra innanlands og erlendis í dansíþróttinni.  Dans hefur verið sýningargrein á alþjóðasumarleikum Special Olympics og nú er hafin innleiðing á dansi sem íþróttagrein innan Special Olympics.

Þegar upplýsingar bárust um dansviðburð Special Olympics í Graz, 2021 var leitað eftir samstarfi við DSÍ sem nú hefur staðfest í samráði við dansíþróttafélagið Hvönn að það verður Agata Erna Jack sem verður fyrsti íslenski keppandinn í danskeppni á  vegum alþjóðasamtaka Special Olympics.  Hún mætir til Graz í ágúst og verður sannarlega glæsilegur fulltrúi Íslands.

Agata er 22 ára Garðbæingur og  verður 23 á þessu ári. Hún æfir samkvæmisdansa hjá Dansfélaginu Hvönn í Kópavogi og á langa sögu að baki í dansíþróttinni. Hún  byrjaði  að æfa samkvæmisdans hjá Hvönn um 4 ára aldur og þá í almennum hópi. Agata er með Dandy Walker Syndrome og móðir hennar ákvað að prófa að mæta með hana á æfingar hjá Hvönn eftitr að hún heyrði af danskennara þar, Hildi Ýr Arnardóttur sem kenndi dans í Öskjuhlíðarskóla og var því vön að vinna með börnum með mismunandi stuðningsþarfir.

Agata hefur alla tíð haft mjög gaman af dansi, hún elskar að klæða sig upp og ekki skemmir að hafa smá “bling” með. Þegar hún var um 13 ára gömul, flutti fjölskyldan til Þýskalands og hætti Agata þá að æfa dans. Þegar fjölskyldan sneri aftur heim til Íslands var enginn augljós vettvangur sem bauð upp á danskennslu fyrir unglinga með fatlanir og þá tók við hlé á dansinum.  Eftir útskrift úr framhaldsskóla opnuðust nýjar dyr þegar hún fékk að aðgang að dansnámskeiðum hjá Fjölmennt,  Dansfélagið Hvönn hefur í samstarfi við Fjölmennt boðið upp á dansnámskeið fyrir fólk með fatlanir í yfir 20 ár.  Agata hefur æft dans með þessum hópi í nokkur ár, hún hefur mikla ánægju af dansinum, heyrir vel takt og man vel öll spor og raðir. Þegar Dansíþróttasamband Íslands (DSÍ) setti af stað nýjan flokk, Stjörnuflokk, hvatti Hildur Ýr þjálfari hennar, Agötu til að taka þátt í keppni. Stjörnuflokkur er settur upp fyrir þá sem hafa áhuga að taka þátt í keppni en þurfa aðlagað keppnisform og regluverk, t.d. einstaklingar með fötlun eða stuðningsþarfir. Agata braut því blað í dansíþróttasögunni í vetur og varð fyrsti einstaklingurinn til að keppa í stjörnuflokki í samkvæmisdansi á dansmóti á vegum DSÍ.

 Hún keppir með svokallaðari pro-am aðferð en þar er dansað við kennara eða leiðbeinanda en aðeins keppandinn er dæmdur. Lilja Rut Þórarinsdóttir danskennari hjá Hvönn er sú sem dansar við Agötu. Einnig er hægt að keppa með solo aðferð og líka pör.  Agata heldur ótrauð áfram og stefnir á aðra keppni hér heima í lok maí. En markmiðið er sett hátt og stefnan er tekin til Austurríkis í ágúst. Hún er að vonum mjög spennt, hlakkar mikið til fararinnar og æfir nú markvisst með kennurum sínum, þeim Hildi og Lilju fram að komandi mótum.

Dansfélagið Hvönn mun næsta vetur bjóða upp á námskeið fyrir alla aldurshópa, börn, unglinga og fullorðna með fatlanir. Kennsla fer fram bæði í blönduðum hópum, fatlaðir og ófatlaðir saman, sem og sér hópar fyrir fatlaða. Hvönn hefur áralanga reynslu í danskennslu fyrir fatlaða og verður kennsla sniðin að fötlun hvers og eins, tillit tekið til hreyfigetu, áhuga og markmiða hvers og eins. Hvönn hefur auk þess hug á að bæta við kennslu í hjólastóladansi á næsta starfsári en húsnæði Hvannar er aðgengilegt öllum, salurinn er á jarðhæð, engar tröppur eða hindranir, sjáflvirk opnun á útidyrahurð, búningsklefar og salerni fyrir fatlaða.