Hákon meistari í fimmta sinn


Íslandsmót Íþróttasambands fatlaðra í borðtennis fór fram í íþróttahúsi ÍFR við Hátún þann 8. maí síðastliðinn. Hákon Atli Bjarkason, ÍFR, varð þrefaldur Íslandsmeistari um helgina en hann hafði sigur í tvíliðaleik, flokki hreyfihamlaðra karla og í opnum flokki eftir úrslitarimmu við Kolbein Skagfjörð frá Akri.


Hákon hefur látið vel að sér kveða síðustu árin en hann varð einnig Íslandsmeistari 2011, 2017, 2018, 2019 og nú aftur 2021.


Inga Hanna Jóhannesdóttir frá ÍFR sigraði í kvennaflokki og Magnús Guðjónsson frá HK sigraði í flokki þroskahamlaðra karla. Mótið þetta árið var minna í sniðum en oft áður en nú þegar bólusetningar eru í fullum gangi vonast stjórn og starfsfólk ÍF til þess að mótahald geti farið að taka á sig rétta mynd á nýjan leik.


ÍF vill þakka öllum þeim sem komu að mótinu við framkvæmd og aðstoð en heildarúrslit mótsins má nálgast hér.


Myndasafn frá mótinu
Úrslit mótsins