Már og Róbert fulltrúar Íslands á EM


Sundmennirnir Már Gunnarsson frá ÍRB og Róbert Ísak Jónsson Fjörður/SH verða fulltrúar Íslands á Evrópumeistaramóti IPC í sundi dagana 16.-22. maí næstkomandi. Mótið átti upphaflega að fara fram sumarið 2020 en var frestað sökum heimsfaraldurs COVID-19. Mótið fer fram í Funchal í Madeira, Portúgal.


Íslenski hópurinn leggur af stað þann 10. maí næstkomandi og er væntanlegur aftur heim þann 23. maí. Bæði Már og Róbert munu keppa í fimm greinum ytra. Már í 50 og 100m skriðsundi, 100m baksundi, 100m flugsundi og 200m fjórsundi. Róbert keppir í 200m skriðsundi, 100m baksundi, 100m bringusundi, 100m flugsundi og 200m fjórsundi. Már keppir í flokki S11 (blindir) en Róbert í flokki S14 (þroskahamlaðir).

Mynd/ Már Gunnarsson verður annar tveggja fulltrúa Íslands á EM í Madeira í næsta mánuði.