Val keppenda á heimsleika Special Olympics í vetraríþróttum, Kazan, Rússlandi 2022


Næstu heimsleikar Special Olympics í vetraríþróttum fara fram í Kazan, Rússlandi 22.-28. janúar 2022. Upphaflega áttu leikarnir að fara fram í Svíþjóð 2021. Fjármögnun gekk ekki samkvæmt áætlun hjá Svíum og SOI þurfti með stuttum fyrirvara að leita að öðrum framkvæmdaraðila. Það tókst og leikarnir verða haldnir í Kazan í samstarfi við Special Olympics í Rússlandi. Heimsleikar eru haldnir fjórða hvert ár, sumar og vetrarleikar
 
Special Olympics á Íslandi stefndi að því að senda keppendur í listhlaupi á skautum eins og áður en einnig var unnið að því að finna iðkendur sem æfa skíðagöngu eða alpagreinar. Vegna sérstakra aðstæðna og styttri undirbúnings en venja er, verður beðið með að hefja þátttöku í nýjum greinum en 6 keppendur verða sendir til þátttöku í listhlaupi á skautum.
Leitað var til íþróttagreinastjóra Special Olympics á Íslandi og skautaþjálfara hjá skautadeild Aspar að tilnefna keppendur á leikana en tilnefningar á heimsleika Special Olympics taka mið af öðru en árangri eins og gildir á hefðbundin íþróttamót. Keppendur sem ekki hafa farið á heimsleika SO áður eru í forgangi en forsenda er að velja iðkendur sem hafa mætt vel á æfingar, sýnt áhuga og metnað að standa sig vel, tekið framförum og sýnt góða félagslega hegðun. Þessir leikar gefa því öllum tækifæri en keppni byggir á því að allir keppa við sína jafningja. Umgjörð er glæsileg og það er mikil upplifun að taka þátt en markmið er að allir nái að blómstra á eigin forsendum.
 
Starf skautadeildar Aspar hefur byggst upp á 10 árum og fleiri bætast í hóp iðkenda ár hvert. Það er því erfitt að velja og allir eiga skilið að fá tækifæri en niðurstaða er komin og eftirtaldir keppendur hafa verið valdir sem fulltrúar Íslands á Heimsleika Special Olympics í vetraríþróttum 2022.
 
Grein; Listhlaup á skautum
Level I
Védís Harðardóttir
Snædís Egilsdóttir
Bjarki Rúnar Steinarsson
Level II
Jóhanna Sigurðardóttir Teuffer
Level III
Gabríella Kamí Árnadóttir
Level IV
Sóldís Sara Haraldsdóttir
Par - Level I
Gabríella Kamí Árnadóttir
Jóhanna Sigurðardóttir Teuffer
Allir þessir keppendur stefna nú að sínum fyrstu Heimsleikum

ÍF og Special Olympics á Íslandi óska keppendum og Skautadeild Aspar til hamingju og framundan er undirbúningur fyrir spennandi verkefni :)