Paralympics verða 24. ágúst - 5. september 2021


Alþjóðaólympíunefndin (IOC), Alþjóðaólympíunefnd fatlaðra (IPC), skipulagsnefnd Ólympíuleikanna í Tókýó 2020, japönsk yfirvöld og borgarstjórn Tókýó hafa kynnt nýjar dagsetningar fyrir Ólympíuleikana og Ólympíumót fatlaðra.


Paralympics fer fram 24. ágúst 2021 til 5. september en þar á undan verða Ólympíuleikarnir frá 24. júlí til 9. ágúst en báðum verkefnum var sem kunnugt er frestað vegna veirufaraldursins COVID-19.


Bæði ÍSÍ og ÍF höfðu til þessa staðið í umtalsverðum undirbúningi vegna beggja verkefna en ljóst þykir að ýmsir viðburðir í aðdragana mótsins, lágmarkatímar og fleira mun taka breytingum á næstu misserum og tilkynnt um slíkt með tíð og tíma.


Jón Björn Ólafsson íþrótta- og fjölmiðlafulltrúi ÍF var skipaður aðalfararstjóri ÍF á Paralympics í Tokýó en hann sagði við þessi tíðindi að öllum væri létt yfir því að nú væru komnar nýjar fastar dagsetningar. „Það er búið að ríkja mikið óvissuástand bæði hjá okkur á skrifstofum ÍF sem og hjá mörgu af okkar afreksfólki. Nú þegar komnar eru nýjar dagsetningar fyrir leikana geta allir farið að þoka sér í rétta átt á nýjan leik og undirbúa sig af krafti fyrir næsta ár. Ísland var þegar komið með svokallaðan kvóta fyrir nokkra íþróttamenn til Tokyo og til stóð að kynna endanlegan hóp í sumarbyrjun þegar stórmótum á borð við EM í sundi og frjálsum væri lokið. Nú breytast öll tímamörk og við verðum að sýna því skilning hve stórt verkefni það er fyrir alla hlutaðeigandi að færa til dagsetningar á jafn stórum verkefnum. Við munum færa tíðindi af því hvernig þessi mál þokast áfram um leið og þau berast. Þangað til óskum við öllum velfarnaðar í baráttunni við COVID-19 og treystum því að allir fari í einu og öllu eftir tilmælum yfirvalda, þannig vinnum við þessa glímu vonandi fljótt og örugglega.”

Mynd/ Loftmynd af Ólympíuleikvanginum í Tokyo