Ólympíuleikunum og Paralympics frestað til 2021


Í gær bárust þau tíðindi að forsætisráðherra Japans, Shinzō Abe og Thomas Bach, forseti Alþjóðaólympíunefndarinnar (IOC) hafi samþykkt að fresta Ólympíuleikunum og Paralympics sem fram áttu að fara í Tókýó í júlí, ágúst og september næstkomandi. Fram kemur að leikana skuli halda í síðasta lagi sumarið 2021.


Ólympíuleik­arn­ir, og Ólymp­íu­mót fatlaðra (Paralympics), verða áfram kenndir við Tókýó 2020. Þetta er í fyrsta skipti sem Ólympíuleikunum hefur verið frestað en þrívegis áður hefur Sumarólympíuleikunum verið aflýst (1916, 1940 og 1944) og Vetrarólympíuleikunum tvívegis (1940 og 1944).


Fjölmiðlar landsins fjölluðu um málið í gær og má sjá nokkrar af fréttum þeirra hér:
RÚV: https://www.ruv.is/frett/olympiuleikunum-frestad
MBL: https://www.mbl.is/sport/frettir/2020/03/24/segir_ad_olympiuleikunum_verdi_frestad_um_eitt_ar/
Vísir: https://www.visir.is/g/202025093d/olympiuleikunum-i-tokyo-verdur-frestad-til-2021


Ólafur Magnússon framkvæmdastjóri fjármála- og afrekssviðs ÍF sagði að í raun hafi frestun leikanna aðeins verið tímaspursmál. „Vonandi eru allir samstíga í því að kveða niður þessa skæðu veiru sem COVID19 er og frestun Ólympíuleikanna og Paralympics er í raun aðeins enn eitt skrefið í þeirri baráttu. Heilsa almennings og þar með talin íþróttafólksins sem skipar báða leikana er það sem koma skal fyrst, annað verður að hafa bið,” sagði Ólafur og bætti við að stjórn og starfsfólk ÍF fylgdist grannt með gangi mála.


„Hvað varðar verkefnin okkar innanlands þá vonandi tekst okkur að ráða fram úr því hvort og þá hvenær þau geti farið fram, þá erum við að tala um verkefni á borð við Íslandsmótin sem og önnur verkefni líkt og Sumarbúðir og fleira. Á meðan bendum við fólki á að hafa samband við okkur á if@ifsport.is ef einhverjar spurningar kunna að vakna.”