Hilmar með sigur í svigkeppni dagsins


Skíðamaðurinn Hilmar Snær Örvarsson frá Víkingi vann í dag sigur í svigkeppni Evrópumótaraðar IPC sem nú stendur yfir í Zagreb í Króatíu. Hilmar var með samanlagðan tíma upp á 1:44,60 mín. og var snöggtum á undan Austurríkismanninum Thomas Grochar sem lauk keppni á 1:45,00 mín.


Aðstæður í Zagreb voru nokkuð krefjandi en það er lítill snjór í fjöllunum og á meðan seinni ferð dagsins stóð í dag gerði talsverða rigningu með þrumuveðri.


Á morgun er frídagur hjá Hilmari en á föstudag og laugardag er stefnan sett á að keppa í svigi og stórsvigi og þannig loka Evrópumótaröðinni í tæknigreinum en eins og sakir standa er það aðstæðum háð hvort svig eða stórsvig verði á undan á föstudag.


Um þessar mundir leiðir Hilmar Snær Evrópumótaröðina í svigi og samanlögðu og er í 2. sæti í stórsvigi.

Úrslit dagsins má nálgast hér

Mynd/ Jón Björn - Hilmar í brekkunum í Króatíu í dag.