Fjölmenni á skemmtilegum Paralympic-degi


Paralympic-dagur Íþróttasambands fatlaðra fór fram í frjálsíþróttahöllinni í Laugardal þann 19. október síðastliðinn. Þetta var fimmta árið í röð sem ÍF stendur að deginum en hann er stór og skemmtilegur kynningardagur á þeim íþróttum fatlaðra sem stundaðar eru á Íslandi.


Aðildarfélög ÍF, nefndir sambandsins, hagsmunafélög fatlaðra, samstarfsaðilar ÍF og margir fleiri verðskulda innilegar þakkir fyrir sína þátttöku í deginum en þarna kenndi ýmissa grasa. Kynningar fóru m.a. fram á stjaksleðum, handahjólreiðum, hjólastólakappakstri, frjálsum, blindrabolta, fimleikum og nútímafimleikum, keilu, snag-golfi, knattspyrnu, hjólastólakörfuknattleik, borðtennis, bogfimi, skotfimi, lyftingum, skautum og mörgu öðru.


Már Gunnarsson bronsverðlaunahafi frá HM í sundi mætti með hljómsveit sína og tók lagið fyrir gesti sem setti einkar skemmtilegan svip á verkefnið og þá kynnti Toyota verkefnið „Start Your Impossible“ en þar eru Már Gunnarsson, Arna Sigríður Albertsdóttir, Patrekur Andrés Axelsson og Stefanía Daney Guðmundsdóttir sérlegir sendiherrar.


Íþróttasamband fatlaðra vill þakka öllum enn og aftur fyrir sitt framlag í deginum og óskar þess að viðburðurinn verði til þess fallinn að hvetja alla og sérstaklega einstaklinga úr röðum fatlaðra til þess að stunda virka og góða lýðheilsu hvort sem það er hjá aðildarfélögum fatlaðra eða ófatlaðra. Heilbrigð sál í hraustum líkama!


Hér má sjá umfjöllun RÚV um Paralympic-daginn 2019