Jón fimmtándi í hjólreiðakeppninni


Global Games í Ástralíu standa nú sem hæst og hér á eftir má sjá helstu tíðindi af íslensku fulltrúunum sem eru í Brisbane við keppni. Mótið er haldið af INAS sem eru heimssamtök íþróttamanna með þroskahömlun.


Jón Margeir Sverrisson hafnaði í 15. sæti í 60km götuhjólreiðum en þetta var hans fyrsta alþjóðlega mót í hjólreiðum en eins og flestum er kunnugt er Jón einn af fremstu sundmönnum þjóðarinnar úr röðum fatlaðra en hefur síðan 2016 lagt áherslu frjálsar og þríþraut. Á fimmtudag verður Jón aftur á ferðinni og keppir þá í tímaþraut.


Þórey Ísafold Magnúsdóttir og Róbert Ísak Jónsson létu sitt ekki eftir liggja í lauginni. Þórey komst ekki í úrslit en bætti sig þó um hálfa sekúndu í 200m skriðsundi. Róbert varð fimmti inn í úrslit í 50m flugsundi og varð svo fjórði í úrslitum á 26,91 sek. en hans besti tími er 26,86 sek.


Þá var Hulda Sigurjónsdóttir við keppni í kúluvarpi og kastaði þar lengst 9,47 metra og hafnaði í 8. sæti. Við hvetjum áhugasama til að fylgjast með á heimasíðu Global Games og á Youtube-rás Global Games.


Mynd/ Hafdís - Jón Margeir klár fyrir hjólreiðakeppnina sem fram fór síðustu nótt.