Landsliðsþjálfari Norðmanna með frábært námskeið í Laugardal


ÍF og Boccianefnd ÍF hafa lengi rætt um að halda þjálfaranámskeið í Boccia og fá til þess reyndan aðila sem kann vel til verka. Helgina 16. og 17. febrúar rann hin langþráða stund upp. Við fengum landsliðsþjálfara Noregs, Egil Lunden, til að halda námskeiðið sem fram fór í Laugardalshöllinni. Rúmlega tuttugu aðilar mættu við námskeiðið frá níu félögum.


Hér að neðan má lesa greinargóða samantek frá námskeiðinu frá Karli Þorsteinssyni formanni boccianefndar ÍF:


Námskeiðið byrjaði á laugardeginum kl. 9:00 með kynningu á þátttakendum til að Egil fengi mynd af þekkingu og reynslu námskeiðsgesta. Reynslan var frá því að þekkja lítilsháttar til Boccia upp í margra ára reynslu við þjálfun. Byrjað var á grunnatriðum Boccia, síðan var farið í flokkun iðkenda, útskýrt gróft hvernig hægt sé að sjá hvaða flokk hver tilheyrir. Komið var inn á mismun á fyrirkomulagi, aðstoðarmönnum og tímum í keppni eftir flokkum.


Því næst var farið í kasttækni. Sýndar voru fimm kasttegundir, þrjár mismunandi spark tegundir og þrjár mismunandi aðferðir við að sleppa boltanum í rennu. Tafla frá BISFed með nöfnum á mismunandi köstum með lýsingum og ætluðum niðurstöðum var sýnd og útskýrð með myndum og vídeó.


Farið var yfir nauðsyn þess að gera æfingaráætlun og hvernig hún gæti litið út. Um er að ræða bæði langtíma og skammtíma áætlanir. Þátttakendum í námskeiðinu var skipt í hópa og fengu hóparnir það verkefni að búa til æfingarprógram og útfæra það á öðrum hóp. Um það spannst mikil umræða og jafnframt ræddi Egil um það sem betur mátti fara.


Á sunnudeginum var sýnt hvaða tæki og boltategundir eru eru á boðstólnum. Mjúkleiki bolta er mismunandi og getur verið gott að hafa blöndu af hörku boltanna. Jafnvel ganga sumir það langt að velja hörku boltanna eftir því hver mótspilarinn er og hvar hann spilar á vellinum. Hvernig hann spilar og með hvernig boltum. Þarna kom reynsla Egils sér vel og fengum við margar og góðar lýsingar á því hvað aðrir eru að gera. Lagði hann til að við kæmum okkur upp sameiginlegum æfingabanka þannig að þjálfarar gætu skipst á æfingum.


Aftur var hópnum skipt upp til að æfa sig í uppsetningu æfinga, framkvæma æfingarnar, fylgjast með og veita endurgjöf. Þetta gekk enn betur en fyrri daginn þannig að námskeiðið virðist hafa skilað árangri.


Í lokin var boðið upp á spurningar og almenna umræðu. Þar var óskað eftir því hvort við gætum skoðað hvernig æfingabanki norðmanna væri og varð Egil fúslega við því. Að endingu fengum við sýnishorn úr æfingabankanum þeirra ásamt glærunum á tölvutæku formi. Ég heyrði ekki annað hjá þátttakendum en að það væri almenn ánægja með námskeiðið og ekki síst framlag Egils.


Karl Þorsteinsson, formaður Boccianefndar ÍF

Mynd/ Karl Þorsteinsson formaður boccianefndar ÍF t.h. og Egil Lunden landsliðsþjálfari Noregs í boccia t.v.