Fjórða Evrópumótið í sundi fyrir fólk með Downs Syndrom og Kristín Þorsteins mætt til leiks


Fjórða Evrópumótið í sundi fyrir fólk með Downs Syndrom er haldið í Paris – Bobigny, dagana. 28. október – 4. nóvember. Það er haldið á vegum DSISO eða The Down Syndrom International Swimming Organisation. Einn íslenskur keppandi tekur þátt í mótinu, Kristín Þorsteinsdóttir, frá Íþróttafélaginu Ívari á Ísafirði.  Kristín er ein fremsta sundkona heim í flokki kvenna S 16 Hún keppir í 50 flug og 100 bak í dag mánudag. Á morgun er 50 bak, á fimmtudag 100 skrið og á föstudag 50 skrið

Kristín er nýorðin 25 ára og á langan feril að baki. Hún var valinn íþróttamaður Ísafjarðar þrjú ár í röð, 2014, 2015 og 2016 og Vestfirðingur ársins 2015. Kristín býr á Ísafirði þar sem hún æfir í 16 metra sundlaug en með  aðstoð góðra þjálfara hefur Kristín stundað æfingar og tekið þátt í keppni þar sem náðst hefur frábær árangur. 

Þátttakendur eru 130 frá 20 Evrópulöndum, þar af Ísland, Danmörk, Finland og Svíþjóð. Einstaklingar með downs heilkenni keppa í fötlunarflokki S16 sem ekki er keppt í á Paralympics eða ólympíumóti fatlaðra. Keppendur með þroskahömlun keppa í einum flokki S14 á Paralympics, flokki S14, karla og kvenna. Umræða hefur farið fram um að það sé þörf á að setja upp sérkeppnisflokk fyrir fólk með Downs heilkenni þar sem sá hópur á nær enga möguleika á að ná lágmörkum sem sett eru fyrir S14. Samtökin DSISIO sem standa að þessu Evrópumóti eru að bregðast við þeirri stöðu og skapa tækifæri til keppni milli þeirra fremstu í hverju landi. 

Á Fb er síða undir heitinu sundkonan Kristín þar sem hægt er að fylgjast með en úti með Kristínu eru Svala þjálfari hennar og móðir hennar Sigríður Hreinsdóttir.  Myndir af Kristínu tók Eva Björk sem mætti á æfingu í Ásvallalaug áður en Kristín hélt til Parísar