Helgi kynnir EM í frjálsum 2018!


Spjótkastarinn og heimsmethafinn Helgi Sveinsson verður einn af fjórum afreksíþróttamönnum sem kynna munu sérstaklega Evrópumeistaramót fatlaðra í frjálsum sem fram fer í Berlín í Þýskalandi sumarið 2018.


Hér á landi er statt tökulið til þess að afla kynningarefnis með Helga en tekið var upp í frjálsíþróttahöllinni í Laugardal í dag og til stendur að ferðast um landið með upptökurnar þessa helgina.


Helgi hefur á síðastliðnum árum getið sér einkar gott orð í spjótinu og er ríkjandi heimsmethafi í flokki F42. Því vill þannig oft bregða við að menn beri kannski ögn stærri nöfn erlendis heldur en hér heimafyrir.


Stjórn og starfsfólk ÍF er gríðarlega stolt með að Helgi skyldi hafa verið valinn í fámennan úrvalshóp til að kynna mótið vítt og breitt um álfuna en næsta sumar mun hann eiga titil að verja þar sem hann er ríkjandi Evrópumeistari í greininni í sameinuðu flokkum F42-44.


Myndir/ Frá frjálsíþróttahöllinni í Laugardal í dag þar sem Helgi og tökuliðið voru í óðaönn að vinna kynningarefni fyrir EM 2018.