HM í sundi í Malasíu 2019


Heimsmeistaramót fatlaðra í sundi í 50m laug fer fram í Malasíu árið 2019 en þetta tilkynnti Alþjóða Ólympíuhreyfing fatlaðra (IPC) í gær. Nú styttist óðar í HM í sundi 2017 sem fram fer í Mexíkó og ljóst að umtalsverð ferðalög tengjast þátttöku Íslands í þessum tveimur verkefnum næstu misseri.


HM 2019 mun fara fram í höfuðborginni Sarawak í Malasíu dagana 29. júlí - 4. ágúst en þar verður gert ráð fyrir um 600 sundmönnum frá 70 þjóðlöndum. Þetta verður í fyrsta sinn sem World Para Swimming Championships fer fram í Asíu og í níunda sinn alls.

Þann 25. september næstkomandi halda fjórir íslenskir sundmenn áleiðis á HM fatlaðra í sundi í Mexíkó en það eru þau Már Gunnarsson, Róbert Ísak Jónsson, Sonja Sigurðardóttir og Thelma Björg Björnsdóttir.