París og Los Angeles næstu áfangastaðir Paralympics


Árið 2020 fara Paralympics fram í Tokyo í Japan en nýverið var greint frá því hvar næstu tveir Ólympíuleikar og Paralympics munu fara fram. Ólympíuleikarnir/Paralympics verða á eftir Tokyo haldnir 2024 í París í Frakklandi og árið 2028 í Los Angeles í Bandaríkjunum. Eins og hlutnum hefur verið háttað undanfarið bjóða þjóðir í að halda bæði Ólympíuleika og Paralympics saman og fara Paralympics að jafnaði fram 2-3 vikum síðar en Ólympíuleikarnir á sama stað við sömu aðstæður.


Síðustu Paralympics 2016 fóru fram í Ríó De Janeiro í Brasilíu þar sem Ísland átti fimm þáttakendur og þar á undan voru leikarnir 2012 í London í Bretlandi þar sem Ísland átti fjóra keppendur. Stefna Íþróttasambands fatlaðra er að geta teflt fram jafn mörgum íþróttamönnum 2020 ef ekki fleiri en í Río De Janeiro. Það er þó ljóst að fremstu íþróttamenn fatlaðra frá Íslandi eru á næstu árum á leið til Japan, Frakklands og Los Angeles til að keppa gegn þeim bestu á Paralympics.