Helgi með stigahæsta kastið og landaði gulli!


Helgi Sveinsson spjótkastari frá Ármanni landaði gullverðlaunum í gær á Grand Prix mótaröð IPC sem fram fór í París í Frakklandi. Helgi átti stigahæsta kastið í spjótkastkeppninni en lengsta kast hans í gær var 56,06 metrar.


Helgi landaði gulli sem stigahæsti kastarinn í allri spjótkastkeppni mótsins en hann keppir í flokki F42 (aflimaðir). Þá var árangur Helga á mótinu næststigahæsta afrek alls mótsins.


Næst á dagskrá hjá heimsmethafanum Helga er Grand Prix mótaröð IPC í Berlín í Þýskalandi en það verður jafnframt síðasta alþjóðlega mótið hans fyrir heimsmeistaramótið í London í júlímánuði.


Mynd/ Einar Vilhjálmsson: Helgi við verðlaunaafhendinguna í Frakklandi í gær.