Samstarf Arion banka og ÍF heldur áfram


Í vikunni var undirritaður samningur milli Arion banka og Íþróttasambands fatlaðra (ÍF) sem tryggir félaginu áframhaldandi stuðning frá bankanum næstu fjögur árin hið minnsta. Það voru þeir Höskuldur H. Ólafsson bankastjóri Arion banka og Þórður Árni Hjaltested formaður Íþróttasambands fatlaðra sem undirrituðu samstarfssamninginn við hátíðlega athöfn í Laugardalshöllinni.


Endurnýjaður samningur Arion banka og Íþróttasambandsins gildir fram yfir Ólympíumót fatlaðra, Paralympics, sem fram fer í Tokyo árið 2020. Áður hafði Arion banki einnig undirritað samstarfssamning við Ólympíufjölskyldu ÍSÍ.

Samstarf Arion banka og Íþróttasamband fatlaðra nær allt aftur til stofnunar ÍF árið 1979 þegar fyrstu fjármunir sambandsins voru lagðir inn á reikning í Búnaðarbankanum. Allar götur síðan hefur sambandið notið samstarfs og stuðnings Arion banka og forvera hans.

Stuðningur Arion banka hefur stuðlað að góðum árangri Íþróttasambands fatlaðra en þar má m.a. nefna umfangsmiklar framfarir í íþróttum fatlaðra og hátt í 100 verðlaun á Paralympics auk fjölda heimsmeta, meistaratitla og evrópumeta.