Heilsuleikskólinn Urðarhóll hlýtur YAP viðurkenningu og kynnir glæsilegan klifurvegg


Special Olympics á Íslandi veitti í dag Heilsuleikskólanum Urðarhóli YAP viðurkenningarskjal sem staðfestir formlegt samstarf vegna hreyfiþjálfunar ungra barna. Þetta er fyrsti leikskólinn á vegum sveitarfélaga sem hlýtur þessa viðurkenningu. Viðurkenningin var afhent í tengslum við kynningu á glæsilegum klifurvegg í leikskólanum. Unnur Stefánsdóttir, frumkvöðull á sviði heilsustefnu fyrir leikskóla var leikskólastjóri á Urðarhóli og það hefur sannarlega verið vel fylgt eftir því starfi sem hún lagði af stað með.Dagskráin í dag hófst með söng leikskólabarna, þá var afhent YAP viðurkenningarskjal til Sigrúnar Huldu, leikskólastjóra og síðan var kynnt hugmynd Írisar, íþróttakennara, klifurveggur fyrir börnin. Ævintýralegur bakgrunnur var hannaður af Immu, starfsmanni leikskólans og vakti hann verðskuldaða athygli gesta.

 

Young Athlete Project eða YAP er alþjóðlegt verkefni á vegum Special Olympics International sem á að stuðla að því að ung börn fái næga hreyfiþjálfun, ekki síst börn með skerta hreyfifærni. 

Heilsuleikskólinn Urðarhóll hefur íþróttakennara að störfum sem mun halda utan um YAP verkefnið en allt fræðsluefni er ókeypis á heimasíðu SOI. Leikskólakennarar og aðrir geta nýtt YAP efnið sem er mjög aðgengilegt enda gert fyrir aðildarlönd SOI um heim allan þar sem aðstæður eru mismunandi. Innleiðing YAP á Íslandi hófst árið 2015 og aðildarfélög ÍF voru hvott til að efla sitt barnastarf og bjóða upp á YAP. Einnig var óskað eftir samstarfi við leikskóla en það er talið geta skipt sköpum varðandi það að ná til barna. það er óhætt að fullyrða að viðbrögð hafa verið mjög góð og YAP er talið falla vel að því starfi sem nú þegar er í leikskólum á Íslandi.