Helgi bætti heimsmetið í Rieti


Nýtt heimsmet - 59.77m
 

Spjótkastarinn Helgi Sveinsson úr Ármanni bætti á laugardag eigið heimsmet um 2.41 m á alþjóðlegu mótaraðamóti Alþjóðaólympíuhreyfingar fatlaðra í frjálsum íþróttum sem fram fór á Rieti á Ítalíu í dag. Áhorfendur á vellinum voru vel með á nótunum þegar sást í hvað stefndi og fögnuðu okkar manni vel og innilega þegar ljóst var að hann hefði kastað yfir eigið heimsmet sem var 57.36m eða um 2.41 m og nýja heimsmetið því 59.77m - glæsilegt afrek og sannar að hann er óumdeilanlega sá besti í þessum sameinuðu flokkum.


Á mótinu keppa allir sterkustu frjálsíþróttamenn álfunnar en mótið er liður í undirbúningi frjálsíþróttafólksins fyrir HM í frjálsum íþróttum sem fram er í London í júlímánuði n.k.


Með Helga á Ítalíu var kastþjálfari hans Einar Vilhjálmsson sem greinileg gat gefið Helga góð ráð en eins og alþjóð veit er Einar einn allra besti spjótkastari sem Ísland hefur átt.


Mynd/ Helgi heimsmethafi í Rieti á Ítalíu.