Hvað er INAS?


Fljótt svarað eru INAS heimssamtök íþróttamanna sem lifa við þroskahömlun. Á ensku stendur skammstöfunin INAS fyrir The International Federation for Inttellectual Disability Sport.


Íþróttasamband fatlaðra hefur verið aðili að INAS um árabil og margt af okkar fremsta íþróttafólki úr röðum fatlaðra tilheyrir hópi íþróttamanna sem lifir við þroskahömlun. Þeirra á meðal eru t.d. Jón Margeir Sverrisson og Sigrún Huld Hrafnsdóttir.

Rétt eins og INAS er heimssamband þroskahamlaðra íþróttamanna hafa íþróttamenn úr röðum blindra/sjónskertra einnig heimssamband (IBSA) sem og einstaklingar með helftarlamanir (CP)(CP-ISRA).

Öll eiga þessi heimssambönd það sameiginlegt að vera aðilar að IPC sem er Alþjóða Ólympíusamband fatlaðra (International Paralympic Committee). IPC heldur einkum utan um Paralympic Games og svo álfumót á borð við Evrópu- og heimsmeistaramót. Heimssambönd hinna mismunandi fötlunarflokka eins og INAS, IBSA og CPISRA halda einnig sín eigin mót fyrir iðkendur úr sínum fötlunarhópum.

Þessu til stuðnings fara Global Games hjá INAS fram í Brisbane í Ástralíu árið 2019 og þar verða eingöngu íþróttamenn með þroskahamlanir sem munu skipa keppendahóp leikanna.

Þórður Árni Hjaltested núverandi formaður Íþróttasamband fatlaðra hefur um árabil verið virkur meðlimur fyrir Íslands hönd í málefnum INAS og m.a. gegnt þar stjórnarstörfum.

Af öllum þeim heimssamböndum sem halda utan um íþróttir fatlaðra eru INAS mjög stór inni á borði Íþróttasambands fatlaðra þar sem langstærstur hópur íþróttamanna á Íslandi í röðum fatlaðra fellur undir iðkendahóp INAS.

INAS samtökin voru stofnuð árið 1986 og nú eru liðlega 80 lönd með aðild að samtökunum sem eru fulltrúar næstum 300.000 íþróttamanna víðsvegar að úr heiminum. Í upphafi voru aðildarlöndin aðeins 14 svo á síðustu þremur áratugum hefur INAS vaxið hægt en örugglega.

Á fjögurra ára fresti heldur INAS sitt stærsta verkefni sem eru INAS Global Games. Mótið er það stærsta sinnar tegundar í heiminum fyrir afreksmenn úr röðum þroskahamlaðra íþróttamanna. Þá stendur INAS að heimsmeistaramótum í sjö mismunandi greinum. Næstu Global Games fara fram í Ástralíu og má fræðast nárnar um það verkefni hér.

Skoða heimasíðu INAS


INAS á Facebook


INAS á Twitter