Jón Margeir í úrslit í 200m fjórsundi


Allir þrír íslensku sundmennirnir tóku þátt í undanrásum í morgun á Paralympics í Ríó de Janeiro. Jón Margeir Sverrisson, Fjölnir, komst í úrslit í 200m fjórsundi en Sonja Sigurðardóttir, ÍFR, og Thelma Björg Björnsdóttir, ÍFR, hafa báðar lokið keppni.


Thelma Björg reið á vaðið í 100m skriðsundi S6 kvenna þar sem hún kom í bakkann á 1.27.04 mín. Næst á eftir Thelmu var Sonja Sigurðardóttir í 50m skriðsundi S4 kvenna en Sonja synti þá á tímanum 1.03.39 mín. Báðar hafa þær lokið keppni, Sonja keppti í tveimur greinum, komst einu sinni í úrslit þar sem hún bætti Íslandsmet sitt í 50m baksundi en Thelma keppti í fimm greinum og var þetta hennar fyrsta Paralympic-mót.

Jón Margeir var síðastur í laugina af íslensku keppendunum í dag þegar hann stakk sér til sund í 200m fjórsundi S14 og varð sjöundi inn í úrslit á 2.19,56 mín. Jón verður á fyrstu braut í kvöld þegar úrslitin fara fram en hann keppir þá kl. 22:51 að íslenskum tíma.