Forseti Íslands heimsótti Paralympic-þorpið


Forseti Íslands, hr. Guðni Th. Jóhannesson heimsótti Paralympic-Village í Ríó de Janeiro í gær. Heimsótti forseti vistarverur íslensku keppendanna í Ríó og fór vel á með honum og þorpsbúum sem hafa síðustu vikuna verið í óðaönn við undirbúning fyrir þátttöku sína á Paralympics.


Í heimsókn forseta voru einnig Helga Steinunn Guðmundsdóttir varaforseti ÍSÍ, Örnólfur Thorsson forsetaritari og Sveinn Áki Lúðvíksson formaður ÍF ásamt Ólafi Magnússyni framkvæmdastjóra fjármála- og afrekssviðs ÍF.


Við dvölina í þorpinu fékk forseti að kynnast aðstæðum, vitarverum íþróttamanna og þeirri þjónustu sem afreksíþróttafólkinu stendur til boða hverju sinni inni í þorpi. Þá snæddi hópurinn allur saman í matsalnum þar sem kennir ýmissa grasa með matarframboði frá öllum heimshornum og þar með talinn ekta íslenskur saltfiskur.


Forseti Íslands var að lokum leystur út með gjöfum í þorpinu en að gjöf frá Íþróttasambandi fatlaðra og Paralympic-hópsins fékk hann viðhafnargalla keppenda sem þau klæddust á opnunarhátíð leikanna á Maracana leikvanginum.


Myndir/ Frá heimsókn forseta í Paralympic-village í gær.