Magnús Orri og Jón Aðalsteinn mynda allra fyrsta ,,Unified Media Team" Special Olympics


Á Evrópuráðstefnu Special Olympics sem haldin var í Berlín 15 og 16 október 2024 var hópur íþróttafólks sem skipar ungmennaráð Special Olympics í Evrópu. Ísland átti glæsilegan fulltrúa íþróttafólks á ráðstefnunni, Magnús Orra Arnarsson, sem hefur verið að vekja athygli fyrir myndbönd og ljósmyndir í verkefnum fyrir Special Olympics á Íslandi. Hann fékk boð um að mynda ráðstefnuna og fór til Berlínar í boði Special Olympics í Evrópu, ásamt aðstoðarmanni, Jóni Aðalsteini Bergsveinssyni. Jón Aðalsteinn er kynningarfulltrúi UMFÍ og ritstjóri Skinfaxa og býr yfir mikilli reynslu sem blaðamaður. UMFÍ og ÍSÍ koma að verkefninu ALLIR MEÐ ásamt ÍF og Special Olympics og það er gríðarlega mikilvægt að hafa fengið þennan reynslumikla fulltrúa UMFÍ í þetta samstarfsverkefni. 

Það vakti mikla athygli á ráðstefnunni að þeir félagar voru merktir "Unified Media Team" Special Olympics en Special Olympics á Íslandi setti þetta upp sem nýtt ,,unified" verkefni innan Special Olympics samtakanna.  

Meginháhersla alþjóðasamtaka Special Olympics er í dag á inngildingu.  Markmið  með "unified"  er að mynda blandað teymi fatlaðra og ófatlaðra sem æfa og keppa saman eða takast á við önnur verkefni. Ísland hefur átt keppendur á heimsleikum Special Olympics í  "unified " golfi og badminton og á heimsleikana á Ítalíu í mars 2025 mætir íslenskt teymi í ,,unified" dansi.  

Fulltrúar stórra fjölmiðla,  SKY, BBC og EBU tóku þátt í panel þar sem rætt var gildi góðrar fjölmiðlunar, sýnileika og umfjöllunar um íþróttir fyrir alla. Árangursríkast er talið að vanda nálgun við myndefnið, segja áhugaverðar sögur og velja rétta myndræna efnið hverju sinni. Teymið frá Íslandi fékk mjög góðan hljómgrunn fyrir sitt verkefni og stefnt er að enn frekara samstarfi í tengslum við heimsleika Special Olympics á Ítalíu 2025. 

Á myndinum er íþróttafólkið ásamt aðstoðarfólki sínu og þeir félagar Magnús Orri og Jón Aðalsteinn

Special Olympics á Íslandi þakkar Magnúsi Orra og Jóni Aðalsteini fyrir samstarfið í Berlín og UMFÍ fyrir að styðja við þetta mikilvæga verkefni.