Þjálfarafundur ÍF 2023. Opnum dyr að íþróttastarfi fyrir alla


Þriðjudagskvöldið 7. nóvember kl. 20.00 - 22.00  2023 verður haldinn þjálfarafundur ÍF.  Fundurinn fer fram á 3. hæð ÍSÍ 

Vinsamlega staðfestið skráningu á fundinn í netfang; annak@ifsport.is

Markmið er að ræða framtíðarfræðslumál, samstarf við HR  og ráðgjöf og aðstoð við nýja þjálfara. Vonast er til þess að sem flestir þjálfarar á Stór Reykjavíkursvæðinu og nágrenni, - sem koma að þjálfun ,,fatlaðra", innan aðildarfélaga ÍF eða utan, mæti á staðinn.  Verkefnið ,,ALLIR MEÐ"  kallar á skilvirkt aðgengi að fræðslu fyrir nýja þjálfara auk ráðgjafar og aðstoðar. 

Þjálfarar sem ekki komast á fundinn t.d. landsbyggðarþjálfarar fá tækifæri til að koma með ábendingar þegar samantekt fundar liggur fyrir og síðar verður boðað til Teams fundar á landsvísu. 

Fræðsluform þarf að byggja á nálgun sem virkar og í samræmi við það sem hentar ólíkum greinum. Það er mikilvægt að ræða hvað hindrar þátttöku og finna leiðir til að allir fái góðar móttökur þegar fyrsta skref er stigið í íþróttahreyfinguna. Þó markhópur fundarins séu þjálfarar með reynslu af þessum málum eru allir áhugasamir  þjálfarar velkomnir á fundinn.

Áhersla hefur verið lögð á það hjá ÍF að íþróttaþjálfun tekur fyrst og fremst mið af íþróttinni sjálfri. Sérþekking þjálfara byggir á því en til viðbótar þarf að aðlaga æfingar að hverjum iðkanda, sama hver hann er.  Viðhorf þjálfara er þar gríðarlega áhrifaríkt og því þarf að skapa jákvætt viðhorf og gefa öllum kost á að taka þátt í þeirri íþróttagrein sem hugur stendur til.