Þessa dagana stendur yfir auka-aðalfundur Alþjþóða Ólympíuhreyfingar fatlaðra (IPC). Fulltrúar Íslands við fundinn eru Þórður Árni Hjaltested formaður Íþróttasambands fatlaðra og Ólafur Magnússon framkvæmdastjóri fjármála- og afrekssviðs ÍF. Í gærkvöldi dró til tíðinda þar sem aðild Rússlands og Hvít-Rússlands að Alþjóða Ólympíuhreyfingu fatlaðra var afnumin tímabundið.
Brottvísunartillaga Rússa og Hvít-Rússa var samþykkt af meirihluta aðildarlanda IPC. Með niðurstöðu þessarar atkvæðagreiðslu missa Rússar og Hvít-Rússar aðild að IPC, þeim réttindum sem því fylgir, og öllum þeim verkefnum sem þar eru. Bæði lönd eiga rétt á því að áfrýja niðurstöðunni og ef það verður ekki gert er aðeins hægt að hleypa löndunum inn á nýjan leik á aðalfundi sem verður síðla árs 2023. Allt útlit er því fyrir að um ársbann sé að ræða.
Grundvöllur brottvísunar þjóðanna úr IPC er m.a. tregða þeirra við að fara eftir þeim skyldum sem þjóðlöndum ber í stjórnarskrá IPC. Þar á meðal ber þjóðlöndum að tryggja að „fair play” öryggi og heilsa íþróttafólk sé verndað. Eins og flestum er kunnugt þá hefur þessi brottvísun að gera með stríðsrekstur Rússa að gera í Úkraínu.
Frétt um málið á heimasíðu IPC