Mikilvægt samstarf Íslands og Rúmeníu er byggt á trausti og vináttu.


Dagana 6. – 10. júní 2022 voru góðir gestir á Íslandi en það voru fulltrúar Special Olympics í Rúmeníu og formenn nýstofnaðra íþróttafélaga þar. Með stofnun 15 íþróttafélaga  víða um landið telur forsvarsfólk Special Olympics í Rúmeníu að starfið fái meiri viðurkenningu en þá skapast skilyrði til að setja á fót  samtök sem halda utan um íþróttastarf félaganna á landsvísu. Special Olympics í Rúmeníu hefur þurft að berjast fyrir tilverurétti sínum og starfið er ekki viðurkennt sem íþróttastarf á sama hátt og verkefni tengd Paralympics.  Staðan er því gjörólík því sem er á Íslandi þar sem unnið er í góðu samstarfi með öll verkefni tengd Paralympics og Special Olympics.

Einn stærsti hópur iðkenda Special Olympics í Rúmeníu eru einstaklingar með downs heilkenni og öflug foreldrasamtök hafa barist ötullega fyrir tækifærum til íþróttastarfs. Baráttan er erfið þar sem lítill stuðningur er við annað íþróttastarf en það sem byggir á árangri og afreksmiðaðri þjálfun.

Special Olympics á Íslandi og í Rúmeníu hófu samstarf árið 2015 í gegnum YAP verkefnið, Young Athlete Project.  Nú stendur yfir þriggja ára samstarf Íslands, Rúmeníu, Slóvakíu, Litháen, Bozniu Herzegoveniu og Svartfjallalands þar sem áhersla er á fræðslu þjálfara og tækifæri fyrir öll börn.

Þetta nýjasta samstarfsverkefni Íslands og Rúmeníu tengist skipulagi íþróttastarfs og uppbyggingu íþróttafélaga á vegum Special Olympics í Rúmeníu. Verkefnið er krefjandi og flókið þar sem mjög ólíkar aðstæður eru í þessum tveimur löndum. Ýmsir þættir skarast þó og nýta má ýmsar leiðir sem Ísland hefur farið við stofnun íþróttafélaga og deilda. Það sama gildir um samstarf við almenn íþróttafélög sem hafa sett á fót æfingar fyrir iðkendur með sérþarfir s.s. Gerpla og Haukar. Það sem skoðað var sérstaklega var það umhverfi sem íþróttafélög búa við og hvaða stuðningur er mikilvægur til að starfið gangi, ekki síst þegar um er að ræða starf fyrir iðkendur með stuðningsþarfir.

Heimsóknir til UMFÍ, ÍSÍ, ÍF og Special Olympics á Íslandi vörpuðu ljósi á stöðu mála á Íslandi og gildi þess að gott samstarf ríki milli slíkra samtaka. Hópurinn kynnti sér starf Gerplu og Hauka fyrir iðkendur úr röðum Special Olympics en á Íslandi hefur verið horft til þess að leita samstarfs við félög og sérsambönd sem sérþekkingu hafa á hverri grein. Dæmi um það eru  fimleikar hjá Gerplu og körfubolti hjá Haukum en einnig hefur verið lögð áhersla á aukið samstarf við sérsambönd ÍSÍ.  Kynning á starfi ÍF, Special Olympics á Íslandi og aðildarfélögum ÍF byggði á því hvernig Ísland gæti aðstoðað Rúmeníu við að innleiða íþróttastarfið í sérstök íþróttafélög og hvernig mætti nýta hugmyndir um samstarf við almenn íþróttafélög.

Í hópnum sem kom til Íslands voru 3 fulltrúar Special Olympics í Rúmeníu og 6 formenn nýstofnaðra  íþróttafélaga. Þeir komu m.a. frá Búkarest, Deva, Constanta og Arad. Í hópi nýrra formanna voru foreldrar fatlaðra barna, skólastjóri grunnskóla, háskólaprófessor, einn af forsvarsmönnum Lionshreyfingarinnar í Rúmeníu, kennarar við sérskóla, þjálfarar í fimleikum og sundi og leiðtogar í samtökum sem vinna að málefnum fólks með þroskahömlun.

Íþróttastarf fyrir fatlaða hefur þróast á Íslandi frá stofnun fyrsta íþróttafélags fatlaðra árið 1974 og frá stofnun ÍF árið 1979.    Starf  íþróttafélaga fatlaðra hefur skapað valkosti sem hafa skipt gífurlega miklu máli gegnum árin. Örugg umgjörð, góðar móttökur og viðhorf þjálfara eru lykilatriði þegar fyrstu skref eru stigin í íþróttastarfi.   Í dag er talið eðlilegt að öll börn geti valið íþrótt eftir áhugasviði en á sama tíma er ákveðin útilokun ennþá í gangi, þegar kemur að börnum með fötlun eða frávik. Íþróttasamband fatlaðra hefur unnið markvisst að því að efla samstarf við sérsambönd ÍSÍ og almenn íþróttafélög og vonast er til þess að mál þróist áfram á jákvæðan hátt og að öll börn verði velkomin í íþróttastarf, hvar sem þau mæta. Ráðstefna sem haldin var 7. apríl 2022 byggði á þessu markmiði og sameiginlegri ábyrgð íþróttahreyfingarinnar, sveitarfélaga og ríkis.

Anna Karólína Vilhjálmsdóttir hafði umsjón með heimsókninni fyrir hönd ÍF en sérstakar þakkir fyrir aðstoðina fá Karen Ásta Friðjónsdóttir í Special Olympics nefnd ÍF og Guðmundur Sigurðsson, fulltrúi LETR á Íslandi